Markaðsaðilar sem Seðlabankinn leitaði til vænta þess að gengi krónunnar hækki lítillega á næstu misserum. Miðað við miðgildi svara í könnun bankans gera þeir ráð fyrir að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir eitt ár og 145 krónur eftir tvö ár.
Markaðsaðilar voru einnig spurðir að því hvaða þættir þeir telja að ráði mestu um þróun verðbólgu á næstu tólf mánuðum. Flestir nefndu gengi krónunnar eða um 70% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar. Þá nefndu 59% svarenda kjarasamninga, 56% þróun íbúðaverðs og 22% alþjóðlega verðbólgu.
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga minnki þegar líður á árið og verði 5,4% að ári liðnu og 4% eftir tvö ár. Væntingar til eins árs hækkuðu frá síðustu könnun en væntingar til tveggja ára voru óbreyttar. Verðbólguvæntingar til fimm og tíu ára lækkuðu lítillega frá síðustu könnun og voru 3,5% til fimm ára og 3,3% til tíu ára.
Rétt er að benda á að könnunin var framkvæmd dagana 23.-25. janúar og því lágu nýjustu verðbólgutölur Hagstofunnar ekki fyrir þegar skilað var inn svörum.
Þá búast markaðsaðilar við því að vextir bankans hækki í 6,25% á yfirstandandi fjórðungi. Tvær vaxtaákvarðanir eru boðaðar á fjórðungnum, annars vegar á miðvikudaginn í næstu viku, 8. febrúar, og þann 24. mars. Svarendur gera ráð fyrir að vextir bankans taki svo að lækka á síðasta fjórðungi ársins. Þá búast þeir við því að stýrivextir verði 6% að ári liðnu og 4,75% eftir tvö ár.
Flestir svarendur töldu taumhald peningastefnunnar hæfilegt eða 56% en hlutfallið var 67% í síðustu könnun. Á móti hækkaði hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of laust í 28% úr 18% í síðustu könnun. Þá töldu 16% að taumhaldið væri of þétt.
Seðlabankinn leitaði til 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 32 aðilum og var svarhlutfallið því 84%.