Alphabet, móðurfélag Google, er komið langt með að ná samkomulagi um kaup á netöryggisfyrirtækinu Wiz. Alphabet bauð meira en 30 milljarða dala í fyrirtækið og yrði þetta því stærsta yfirtaka netrisans til þessa gangi kaupin í gegn.
Alphabet reyndi einnig að kaupa Wiz fyrir 23 milljarða dala síðasta sumar en samningar náðust ekki. Í umfjöllun Reuters segir að nýtt tilboð Alphabet sé ríflega þriðjungi hærra en það sem félagið bauð í Wiz síðasta sumar.
Wiz, sem er með höfuðstöðvar í New York og skrifstofur í Ísrael, sleit viðræðum síðasta sumar m.a. þar sem forsvarsmenn og hluthafar þess höfðu áhyggjur af því hversu langur tími færi að fá heimild frá eftirlitsaðilum. Þá náðu fyrirtækin ekki saman um hvort Wiz yrði rekið sem sjálfstætt félag innan Alphabet eða samþætt inn í skýjaþjónustuhluta samstæðunnar.
Heimildarmenn WSJ segja að samkomulag gæti náðst bráðlega ef engir hnökrar koma upp á lokametrunum eins og síðasta sumar.