Hækkun á fasteignaverði síðustu ár hefur haft neikvæð áhrif á verðbólgumælingar hérlendis en að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra eru tvær meginástæður fyrir því að framboð á fasteignum ekki svarað eftirspurn.
„Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi eftir hrunið, þá hrundi byggingargeirinn. Þrotabú gömlu bankanna seldu öll tæki til Noregs og síðan fluttu iðnaðarmennirnir eftir tækjunum til Noregs og það tók alltof langan tíma að koma þessu aftur af stað.
Í öðru lagi er náttúrulega nýtt skipulag í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu þar sem engin ný hverfi hafa verið skipulögð. Það augljóslega leiðir til hækkunar fasteignaverðs,“ sagði Ásgeir á fundi Viðskiptaráðs í gærmorgun.
Hann sló á létta strengi og sagðist þekkja þessar skipulagsbreytingar á eigin skinni en borgin er að vinna í þéttingarrétt í nálægð við heimili hans.
„Ég er mjög hrifinn af þéttingu byggðar nema þegar það gerist hjá mér“ sagði Ásgeir í léttum tón.
„Ég man eftir öllum fundunum. Það eru allir í hverfinu á móti þessum þéttingarreit. En það var ekki hlustað á neitt af því sem við höfðum að segja. Þannig þetta græna gímald kemur mér ekkert á óvart,“ sagði Ásgeir og uppskar hlátur úr salnum.
Borgin sparar á kostnað borgarbúa
Hann sagði þó á mun alvörugefnum nótum að þetta skipulag hjá borginni væri þó tilkomið því það er ódýrara fyrir borgaryfirvöld en dýrara fyrir kaupendur.
„Hverfi sem eru byggð inn í bænum eru dýrari. Verktakar þurfa að kaupa lóðirnar, það þarf oft að rífa eitthvað sem er á lóðunum. Það þarf að standa í alls kyns veseni en uppbygging inn í borginni er ódýrari fyrir borgina því þá þarf ekki að byggja fráleiðslukerfi og vegi og svo framvegis,“ sagði Ásgeir.