Arðgreiðslusjóður Stefnis greiddi í dag út arð til 774 sjóðfélaga sjóðsins og nam arðgreiðsluhlutfall 4,1 kr. á hlut eða 4,8% af heildarstærð sjóðsins. Þetta er kemur fram í tilkynningu til sjóðfélaga á vef Stefnis.
Í fyrra greiddi sjóðurinn út 23,5% af heildarstærð sjóðsins í arð til sjóðsfélaga en það háa hlutfall mátti rekja til þess að Orgio seldi Tempo og Síminn seldi Mílu en afrakstur af sölunum tveimur var greiddur til hluthafa.
Sjóðurinn er sá eini sinnar tegundar hér á landi sem greiðir uppsafnaðar arðgreiðslur til sjóðfélaga einu sinni á ári. Sjóðurinn sker sig úr frá hefðbundnum hlutabréfasjóðum þar sem arður er greiddur til hlutdeildarskírteinishafa.
Félögin sem sjóðurinn á í ráðstafa afkomu sinni að einhverju leyti með greiðslu til hluthafa í formi arðgreiðslna. Því fær sjóðurinn greiddan arð sem hann svo skilar til hlutdeildarskírteinishafa á hverju ári.
Samkvæmt heimasíðu Stefnis fjárfestir sjóðurinn í félögum sem hafa sögulega greitt arð og/eða eru líkleg til að greiða arð innan 12 mánaða.
Sjóðurinn tekur fyrst og fremst stöður í hlutabréfum íslenskra hlutafélaga og hlutafélaga með starfsemi á Íslandi, sem skráð eru í NASDAQ OMX Nordic Iceland, First North markaðnum, eða annarri viðurkenndri kauphöll eða markaðstorgi fjármálagerninga.