Guðmundur Björgvin Helgason var kjörinn ríkisendurskoðandi til sex ára á Alþingi í dag. Guðundur hefur verið starfandi ríkisendurskoðandi frá því að Skúli Eggert Þórðarson lét af embættinu til að aka við starfi ráðuneytisstjóra menningar- og viðskiptaráðuneytisins í byrjun þessa árs.
Guðmundur hóf störf hjá embættinu 2019 sem forstöðumaður Akureyrarstofu, sem honum var falið að koma á fót, ásamt því að vera sviðsstjóri tekjueftirlits og staðgengill ríkisendurskoðanda.
Þá starfaði Guðmundur í níu ár í utanríkisráðuneytinu, heima og erlendis, og var ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu í sjö ár. Hann var framkvæmdastjóri fyrirtækis á sviði fasteignaþróunar í tvö ár og var sjálfstætt starfandi ráðgjafi í fjögur ár þar sem hann sinnti meðal annars ráðgjöf við ýmsar opinberar stofnanir. Guðmundur Björgvin var starfsmaður Flóttamannahjálpar SÞ í fimm ár með aðsetur í Amman í Jórdaníu.
Guðmundur Björgvin lauk meistaraprófi í stjórnmálafræði frá London School of Economics og BA-prófi í alþjóðasamskiptum frá George Washington University.
Viðskiptablaðið sagði frá því að Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hafi sent forsætisnefnd bréf og kallað eftir því að kjörinn ríkisendurskoðandi væri með löggildingu sem endurskoðandi. Hvorki Guðmundur Björgvin né forveri hans Skúli Eggert eru löggiltir endurskoðendur.