Ítalska hátískumerkið Golden Goose verður skráð í Kauphöllina í Mílanó í næsta mánuði en samkvæmt Financial Times verður skráningin nýjasta prófraunin fyrir frumútboð í Evrópu.
Golden Goose, sem er meðal annars vinsælt hjá stórstjörnum eins og Taylor Swift og Selenu Gomez, er í eigu breska eignastýringafyrirtækisins Permira.
Samhliða skráningunni mun félagið fara í 100 milljóna evra hlutafjárútboð sem hefst í júnímánuði en fyrirtækið hyggst nýta fjármagnið í að greiða niður skuldir og styrkja fjárhagsstöðu sína.
Samkvæmt FT er mikil eftirvænting eftir skráningu fyrirtækisins þrátt fyrir að hægst hafi verulega á tekjum hátískufyrirtækja.
Golden Goose er hvað þekktast fyrir að selja „skítuga“ strigaskó sem kosta 500 evrur eða um 74 þúsund krónur á gengi dagsins.
Tekjur fyrirtækisins námu 587 milljónum evra í fyrra sem samsvarar um 87 milljörðum króna en tekjuspá fyrirtækisins gerir ráð fyrir að tekjurnar fyrir yfir milljarð evra árið 2029.
Silvio Campara forstjóri segir að skráning sé næsta eðlilega skrefið fyrir fyrirtækið ætli það að stækka enn frekar.