Dómstóll Evrópusambandsins hefur úrskurðað að hið svokallaða „gylltu vegabréf“ sem stjórnvöld í Malta bjóða upp á brjóti í bága við evrópsk lög. Útlit er fyrir að maltnesk stjórnvöld neyðist því til að hætta að selja evrópskan ríkisborgararétt.

Á vef FT segir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi vísað málinu til dómstólsins árið 2023 þar sem hún taldi að sala á evrópskum ríkisborgararétti bryti gegn gagnkvæmu trausti milli aðildarríkja.

Með því að öðlast maltneskan ríkisborgararétt öðlast sá einstaklingur sömu réttindi til að búa og starfa hvar sem er innan ESB ásamt því að taka þátt í kosningum.

Kýpur og Búlgaría hafa þegar afnumið sín kerfi sem buðu upp á sams konar ríkisborgararétt vegna þrýstings frá Brussel, en ráðamenn ESB höfðu haldið því fram að kerfið bjóði upp á spillingu, peningaþvott og skattsvik.

Malta endurskoðaði kerfið sitt árið 2020 og sögðust þarlend stjórnvöld hafa hert kröfur á umsækjendur.

Þeir sem kaupa maltneskt vegabréf þurfa að fjárfesta fyrir að minnsta kosti 600 þúsund evrur í landinu, kaupa eða leigja fasteign, gefa 10 þúsund evrur til góðgerðarmála og búa í landinu í þrjú ár. Hægt er hins vegar að lækka búsetuskilyrðið niður í eitt ár ef fjárfest er fyrir meira en 750 þúsund evrur.

Í greiningu FT kom í ljós að 16 einstaklingar sem fengu maltneskt vegabréf teljast vera í stjórnmálatengdum áhættuhópi eða voru síðan dæmdir fyrir glæpi.