Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 20,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar um fjárhag hins opinbera. Nemur hallinn 2,4% af vergri landsframleiðslu á ársfjórðungnum sem er viðsnúningur frá því í fyrra þegar hallinn nam 8,6% af landsframleiðslu á sama tímabili, en landsframleiðsla jókst um 8,6% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem styður við tekjujöfnuð hins opinbera í hlutfalli af landsframleiðslu.
Heildartekjur hins opinbera á fyrsta fjórðungi jukust um 17,7% miðað við sama fjórðung í fyrra en heildarútgjöld jukust um 3,6%. Tekjuaukninguna má fyrst og fremst rekja til aukinna skatttekna, sem jukust um 10,7% frá sama tímabili í fyrra, og 27,9 milljarða króna arðgreiðslna sem fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins hafa samþykkt að greiða út á þessu ári en eru tekjufærðar á fyrsta ársfjórðungi. Áætlað er að launakostnaður hins opinbera hafi aukist um 8,2% frá sama tímabili fyrra árs sem skýrir að mestu aukin heildarútgjöld en útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga drógust saman um 45,9% á tímabilinu.