Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4% í 4,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tólf félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og tíu lækkuðu.

Mesta breytingin var á gengi hlutabréfa Hampiðjunnar sem hækkaði um 4,3% í 131 milljónar króna veltu. Hlutabréfaverð Hampiðjunnar stendur nú í 109 krónum á hlut.

Hlutabréf Icelandair, Amaroq Minerals og Oculis hækkuðu einnig um meira en 2% í dag. Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um 2,5% í yfir 200 milljóna króna veltu og stendur nú í 1,46 krónum á hlut. Gengi Icelandair, sem tilkynnti um farþegatölur desembermánaðar eftir lokun Kauphallarinnar í gær, er um 12% hærra en fyrir mánuði síðan.

Fjögur félög aðalmarkaðarins lækkuðu um meira en eitt prósent í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð JBT Marels lækkuðu mest eða um 2,2% í 61 milljónar króna veltu og stendur nú í 17.600 krónum á hlut.