Opinberar stofnanir bókfærðu tæplega 338 milljónir króna vegna risnu á síðasta ári samkvæmt upplýsingum úr fjárhagskerfi ríkisstofnana.

Háskóli Íslands var örlátasta ríkisstofnunin og bókfærði rúmar 64 milljónir króna vegna risnu. Ríkisendurskoðun gerði athugasemd við ársreikning HÍ fyrir árið 2020 þess efnis að tryggja þyrfti eftirfylgni með reglum um risnuhald. Bókfærð risna HÍ var margföld á við aðrar ríkisstofnanir í fyrra.

Athygli vekur að Heilbrigðisstofnun Norðurlands bókfærði rúmar 16 milljónir króna vegna risnu, að langstærstum hluta vegna viðskipta við K6 ehf. sem rekur veitingastaðina Rub23, Bautann, Sushi Corner og Pizzasmiðjuna á Akureyri. Til samanburðar bókfærði Landspítali, sem hefur um tífalt rýmri fjárráð skv. fjárlögum, tæpar 16 milljónir vegna þessa á síðasta ári. Lesendum er bent á uppfærslu neðst í fréttinni vegna þessa.

Með risnu í þessu samhengi er almennt átt við kostnað sem fellur til þegar gestgjafi vill sýna þeim sem risnunnar njóta gestrisni, þakklæti eða viðurkenningu. Risna felur gjarnan í sér mat og drykk, gjafir, viðburði eða skemmtanir og er almennt ekki bókfærð vegna velgjörðar við starfsfólk, s.s. vegna árshátíða eða vinnustaðaskemmtana.

Tíu gjafmildustu ríkisstofnanirnar árið 2022

Háskóli Íslands 64.007.567 ISK
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 16.301.968 ISK
Landspítali 15.893.749 ISK
Lyfjastofnun 13.182.963 ISK
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 12.358.419 ISK
Utanríkisráðuneyti 12.062.647 ISK
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 11.332.595 ISK
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 10.721.503 ISK
Ríkisskattstjóri 9.863.262 ISK
Veðurstofa Íslands 9.524.943 ISK
Upplýsingar eru fengnar úr fjárhagskerfi ríkisstofnana og birtar með fyrirvara um villur

Viðburðir, vín og rúgbrauð

Stærsti birgi ríkisstofnana þegar kom að risnu var Miðborgin okkar, sem eru samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni. Félagsmenn eru yfir 100 talsins og standa þeir saman að ýmsum viðburðum í samstarfi við Reykjavíkurborg og fleiri aðila. Ríkisstofnanir bókfærðu 22,4 milljónir króna í risnu í viðskiptum við samtökin.

Bókfærð risna í viðskiptum við Hörpu og Flugleiðahótel nam rúmum 15 milljónum hjá hvoru fyrir sig, samtals rúmum 30 milljónum króna.

Eins og fyrr segir nam bókfærð risna í viðskiptum við K6 ehf. tæpum 15 milljónum króna, nær alfarið vegna Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Þá námu viðskipti ríkisstofnana við Félagsstofnun stúdenta tæpum 10 milljónum og rúmum 9 milljónum við ÁTVR.

Ríkisstofnanir bókfærðu rúmar 7 milljónir í viðskiptum við Rúgbrauðsgerðina, sem er veislumiðstöð.

Tíu stærstu birgjar ríkisstofnana vegna risnu árið 2022

Miðborgin okkar 22.400.000 ISK
Harpa tónlistar- og ráðste ohf. 15.293.299 ISK
Flugleiðahótel ehf. 15.290.805 ISK
K6 ehf. 14.823.850 ISK
Gullhamrar veitingahús ehf 10.210.899 ISK
Félagsstofnun stúdenta 9.697.170 ISK
Áfengis-/tóbaksverslun ríkisins 9.423.650 ISK
Starfsmannafélag fjármála/efnah 7.920.000 ISK
Rúgbrauðsgerðin ehf. 7.318.005 ISK
Iceland Travel ehf. 7.023.205 ISK
Upplýsingar eru fengnar úr fjárhagskerfi ríkisstofnana og birtar með fyrirvara um villur

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstofnun Norðurlands voru upplýsingar úr fjárhagskerfi ríkisstofnana ekki réttar. Árið 2022 hafi risna numið kr. 5.915.054,- þar af kr. 3.432.000,- vegna viðskipta við K6 ehf. sem var vegna árshátíðar stofnunarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun voru upplýsingar úr fjárhagskerfi ríkisstofnana ekki réttar. Í athugasemd frá Lyfjastofnun segir:

Upplýsingarnar sem stuðst er við í umfjölluninni eru teknar af vefnum Opinberir reikningar ríkisins sem sýnir yfirlit yfir greidda reikninga ríkisstofnana á viðkomandi ári og gefur ekki rétta endanlega stöðu bókaðra lykla á uppgjörsári.

Lyfjastofnun vill benda á að það kemur ekki fram í þessu yfirliti að stór hluti fjárhæðarinnar var endurgreiddur og kemur því til lækkunar á risnulykli árið 2022.

Hið rétta er að bókhald Lyfjastofnunar árið 2022 sýnir að bókfærð risna það ár er samtals 2,3 milljónir. Þessi risna var framlag/risna til starfsmanna/starfsmannafélags vegna tilfallandi viðburða starfsmanna, líkt og heimilt er skv. kafla 2.1 í skattmatsreglum nr. 1502/2021. Engin risna var bókfærð þar sem Lyfjastofnun var gestgjafi, eða 0 kr.

Þá er það undirstrikað að heimild til þess að bókfæra risnu fyrir starfsmenn, skv. matsfjárhæð Skattsins er margfalt hærri en það sem Lyfjastofnun bókfærði á árinu 2022.