Alvotech hefur hafið rannsókn á lyfjahvörfum AVT03 (denosumab), fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Prolia og Xgeva. Á síðasta ári námu samanlagðar tekjur af sölu Prolia og Xgeva um 730 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda lyfjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu Alvotech til Kauphallarinnar.
Prolia (denosumab) er notað til meðferðar við beinþynningu eftir tíðahvörf hjá konum og við beintapi hjá körlum og konum sem eru í aukinni hættu á beinbrotum. Xgeva (denosumab), sem er sama líftæknilyfið í öðru lyfjaformi, er gefið til að fyrirbyggja einkenni frá beinum, svo sem sjúkleg beinbrot hjá fullorðnum með langt gengna illkynja sjúkdóma sem tengjast beinum. Það er einnig gefið til að meðferðar við risafrumuæxli í beinum.
Framangreind rannsókn mun bera saman lyfjahvörf, öryggi og þolanleika AVT03 og Prolia, í heilbrigðum karlmönnum.
„Þessi hraði framgangur okkar í lyfjaþróun sýnir glögglega þá afkastagetu sem Alvotech hefur byggt upp á sviði líftæknilyfjahliðstæða. Nýjasta áfanginn í AVT03 verkefninu er hluti af fyrirætlunum okkar um að stuðla að bættum lífsgæðum með auknu aðgengi að hagkvæmari líftæknilyfjum,“ sagði Joseph McClellan, rannsóknarstjóri Alvotech.
Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða. Af þeim hafa fjögur lyf verið tekin til klínískra rannsókna eða eru þegar á markaði. Fyrsta lyf Alvotech kom á markað í Evrópu og Kanada fyrr á þessu ári, AVT02 (adalimumab) sem er líftæknilyfjahliðstæða við Humira. Í maí kynnti fyrirtækið jákvæða niðurstöðu úr rannsókn á klínískri virkni, öryggi og ónæmingarverkun og rannsókn á lyfjahvörfum fyrir AVT04 (ustekinumab), fyrirhugaðri hliðstæðu við Stelara. Í júlí kynnti Alvotech að hafin væri klínísk rannsókn á AVT06 (aflibercept), fyrirhugaðri hliðstæðu við Eylea.