Heildareignir Seðlabanka Íslands námu 936 milljörðum króna í lok september og hafa þannig hækkað um 110 milljarða frá árslokum 2023 er þær voru 826,7 milljarðar.
Í rekstrarreikningi bankans má sjá að virðisbreytingar erlendra eigna bankans á fyrstu níu mánuðum ársins námu 6,4 milljörðum króna sem er tæplega 7 milljarða hækkun frá fyrstu níu mánuðum ársins 2023.
Þá var 3,7 milljarða hagnaður af fjármálagerningum fyrir gengismun á tímabilinu í samanburði við 7,5 milljarða tap á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.
Heildarhagnaður af fjármálagerningum nam 5,6 milljörðum króna sem er viðsnúningur úr 28,9 milljarða tapi á sama tímabili í fyrra.
Hagnaður tímabilsins nam 1,7 milljörðum króna sem er töluverður viðsnúningur úr 32,2 milljarða tapi á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.
Hrein vaxtagjöld bankans voru í 3,3 milljarða króna mínus en vaxtajöfnuður Seðlabanka Íslands hefur verið neikvæður samfleytt frá árinu 2015 ef undanskilið er árið 2020 þegar vextir bankans voru sögulega lágir.
Vaxtajöfnuðurinn er þó betri í ár en í fyrra en hann var neikvæður um 6,4 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.
Á ársfundi Seðlabankans í apríl sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að þetta væri ein af ástæðum þess að bankinn hafi ákveðið að hækka fasta vaxtalausa bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni.
„Þótt seðlabankar séu ekki hagnaðardrifnir og geti tæknilega séð ekki orðið gjaldþrota í heimagjaldmiðli sínum þá hefur fjárhagsstaða þeirra áhrif,” sagði Ásgeir í vor.
Frá árslokum 2023 til loka september fór gulleign Seðlabankans úr 17,9 milljörðum í 22,8 milljarða en verð á gulli hefur hækkað töluvert á árinu.
Erlend verðbréf og aðrar eignir í gjaldeyrisforða bankans fór úr 515 milljörðum í 731 milljarð.
Skuldir við innlendar lánastofnanir vegna peningastefnu jukust úr 281,6 milljörðum í 346,9 milljarða.
Heildarskuldir bankans fóru úr 725,7 milljörðum í 833,3 milljarða.