Heildar­eignir Seðla­banka Ís­lands námu 936 milljörðum króna í lok septem­ber og hafa þannig hækkað um 110 milljarða frá árs­lokum 2023 er þær voru 826,7 milljarðar.

Í rekstrar­reikningi bankans má sjá að virðis­breytingar er­lendra eigna bankans á fyrstu níu mánuðum ársins námu 6,4 milljörðum króna sem er tæp­lega 7 milljarða hækkun frá fyrstu níu mánuðum ársins 2023.

Þá var 3,7 milljarða hagnaður af fjár­mála­gerningum fyrir gengis­mun á tíma­bilinu í saman­burði við 7,5 milljarða tap á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.

Heildar­hagnaður af fjár­mála­gerningum nam 5,6 milljörðum króna sem er við­snúningur úr 28,9 milljarða tapi á sama tíma­bili í fyrra.

Hagnaður tíma­bilsins nam 1,7 milljörðum króna sem er tölu­verður við­snúningur úr 32,2 milljarða tapi á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra.

Hrein vaxta­gjöld bankans voru í 3,3 milljarða króna mínus en vaxta­jöfnuður Seðla­banka Ís­lands hefur verið nei­kvæður sam­fleytt frá árinu 2015 ef undan­skilið er árið 2020 þegar vextir bankans voru sögu­lega lágir.

Vaxta­jöfnuðurinn er þó betri í ár en í fyrra en hann var nei­kvæður um 6,4 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.

Á árs­fundi Seðla­bankans í apríl sagði Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri að þetta væri ein af á­stæðum þess að bankinn hafi á­kveðið að hækka fasta vaxta­lausa bindi­skyldu lána­stofnana úr 2% í 3% af bindi­grunni.

„Þótt seðla­bankar séu ekki hagnaðar­drifnir og geti tækni­lega séð ekki orðið gjald­þrota í heima­gjald­miðli sínum þá hefur fjár­hags­staða þeirra á­hrif,” sagði Ásgeir í vor.

Frá árs­lokum 2023 til loka septem­ber fór gull­eign Seðla­bankans úr 17,9 milljörðum í 22,8 milljarða en verð á gulli hefur hækkað tölu­vert á árinu.

Er­lend verð­bréf og aðrar eignir í gjald­eyris­forða bankans fór úr 515 milljörðum í 731 milljarð.

Skuldir við inn­lendar lána­stofnanir vegna peninga­stefnu jukust úr 281,6 milljörðum í 346,9 milljarða.

Heildar­skuldir bankans fóru úr 725,7 milljörðum í 833,3 milljarða.