Gengi Marel lækkaði um rúm 6% í 1,1 milljarða króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Gengi félagsins hefur ekki verið lægra í fjögur ár en dagslokagengið var 410 krónur sem er lækkun úr 438 krónum milli daga.
Gengislækkun Marels hafði neikvæð áhrif á úrvalsvísitöluna OMXI 10 sem lækkaði um 2,11% í dag og lokaði í 2.228 stigum en fara þarf aftur til ársins 2020 til að finna sambærilega lægð úrvalsvísitölunnar.
Einungis tvö skráð félög hækkuðu í Kauphöllinni í dag en Iceland Seafood fór upp um 1,82% í 17 milljón króna viðskiptum en félagið leiddi hækkanir á markaði í gær eftir að Bjarni Ármansson forstjóri tilkynnti að hann væri að láta af störfum í nóvember.
Hlutabréf Play hækkuðu um 10%
Alls lækkaði gengi 18 skráðra félaga í Kauphöllinni í dag. Kvika banki lækkaði um 1,64% í 156 milljón króna viðskiptum. Eimskip lækkaði um 2,43% í 68 milljón króna veltu og Reginn lækkaði 2,54% í 16 milljón króna veltu.
Hagar lækkuðu um 2,19% í 69 milljóna króna veltu. Dagslokagengi Haga var 67 krónur líkt og dagslokagengi föstudagsins en gengið rauk upp fyrir helgi þegar félagið færði afkomuspá sína upp.
Play hækkaði um rúm 10% á First North markaðnum í 17 milljón króna veltu og var dagslokagengið 8,55 krónur. Gengi flugfélagsins hefur lækkað um 30% síðastliðinn mánuð og hafa stjórnendur félagsins boðað til upplýsingafundar með fjárfestum og markaðsaðilum um reksturinn á fimmtudaginn.
Heildarvelta í Kauphöllinni var 3,5 milljarðar.