Hlutafé Grímnis ehf., fjárfestingarfélags Andra Sveinssonar, var aukið um 650 milljónir króna í byrjun júní, úr 350 milljónum í 1.000 milljónir króna. Grímnir, sem var stofnað árið 2021, hefur m.a. fjárfest í líftæknifyrirtækinu Genís á Siglufirði, lyfjaþróunarfélaginu 3Z og Leita I, leitarsjóði á vegum Leitar Capital Partners.
Ætla má að hlutafjáraukning Grímnis tengist að hluta 1,1 milljarðs króna hlutafjáraukningunni sem Genís tilkynnti um í lok júní sl. þar sem líftæknifyrirtækið sem þróar kítínfásykrur til notkunar í fæðubótaefnum, lyfjum og beinígræðslu, var metið á 23 milljarða króna. Andri kom inn í hluthafahóp Genís og eignaðist 4,2% hlut þegar hann tók þátt í 2,4 milljarða króna hlutafjáraukningu félagsins á seinni hluta árs 2022.
Andri Sveinsson var einn stærsti hluthafi og stjórnarformaður Kerecis áður en íslenska lækningavörufyrirtækið var selt fyrir 180 milljarða í fyrra. Sigþór Sigmarsson, samstarfsmaður Andra og stjórnarformaður Grímnis, situr í stjórn Genís.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.