Hlutdeildarlánakerfið leit dagsins ljós haustið 2020 en innviðaráðherra rýmkaði þann 21. júní sl. skilyrði fyrir lánunum. Tekjumörk hækkuðu um 10,6% og hámarksverð íbúða hækkaði um á bilinu 21-25% frá því sem kveðið var á um í fyrri reglugerð. Þá var úthlutunum fjölgað úr sex á ári í tólf.

Eftirspurn eftir hlutdeildarlánum hefur aukist frá því að ný reglugerð tók gildi, samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem sér um framkvæmdina. Á tveimur vikum, frá 21. júní til 4. júlí, höfðu 86 umsóknir borist en til samanburðar bárust 66 umsóknir á fyrstu sex mánuðum ársins. Eftir breytinguna fjölgaði samþykktum íbúðum einnig talsvert, eða um 220, og eins og staðan er í dag eru hátt í 300 íbúðir skráðar til sölu sem eiga að uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán.

Í heildina hafa 490 lán verið veitt frá því að úrræðið tók gildi. Þau voru langflest árið 2021 eða 297 talsins, en þar áður höfðu fjögur lán verið veitt í lok árs 2020. Síðastliðinn tvö ár dró verulega úr fjölda lána þar sem hámarksverð íbúða sem uppfylltu skilyrði hlutdeildarlána fylgdu ekki þeim miklu verðhækkunum sem urðu á þeim tíma. Alls voru 152 lán veitt árið 2022 og hafa 37 lán verið veitt það sem af er ári 2023.

Lánsfjárhæð þessara 490 lána nemur alls rúmum fjórum milljörðum króna. Mest hefur farið í lán á vaxtarsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins, rúmir tveir milljarðar króna. Rúmlega 1.737 milljónir hafa farið í lán á höfuðborgarsvæðinu og tæplega 268 milljónir á landsbyggðinni utan vaxtarsvæða.

Sé litið á landshluta er fjöldi lána mestur á höfuðborgarsvæðinu, eða 197. Á Suðurnesjum hafa 140 lán verið veitt, 61 á Norðurlandi eystra, 48 á Suðurlandi, 39 á Vesturlandi, 3 á Vestfjörðum og 2 á Norðurlandi Vestra. Ekkert hlutdeildarlán hefur verið veitt á Austurlandi.

Frá lok árs 2020 hefur HMS samþykkt 1.814 íbúðir inn í úrræðið, þar af 611 á höfuðborgarsvæðinu, 461 á Suðurnesjum, 370 á Suðurlandi, 179 á Norðurlandi eystra, 106 á Vesturlandi, 33 á Austurlandi, 29 á Vestfjörðum og 25 á Norðurlandi vestra.

Nánar er fjallað um hlutdeildarlánin í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.