Mörgum brá í brún í vor þegar greint var frá erfiðri fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Árborgar. Sveitarfélagið leitaði til innviðaráðuneytisins í upphafi árs og aðgerðaráætlunin Brú til betri vegar kynnt á íbúafundi í apríl þar sem nokkrar tillögur voru lagðar fram með það markmið að koma rekstrinum aftur á réttan kjöl.

Ljóst var að staðan hafði versnað hratt frá árinu 2021 en árið 2022 var rekstrarniðurstaða A-hluta, sem er að mestu fjármagnaður með skatttekjum, neikvæð um 3.386 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A- og B-hluta neikvæð um 2.822 milljónir, sem var talsvert umfram áætlanir.

„Það er svo sem ekkert launungarmál að reksturinn hefur verið þungur og framlegðin lítil. Við fórum af stað inn í þetta ár með mjög erfiða lausafjárstöðu þar sem það var taprekstur á árinu 2022 og í rauninni var lausafjárstaðan lakari í árslok en reiknað var með í útkomuspá,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.

Þegar hefur verið ráðist í hagræðingaraðgerðir og virðist nálin vera að hreyfast ef marka má árshlutauppgjör sveitarfélagsins sem birt var á dögunum. Niðurstaða A- og B-hluta var neikvæð um 1.315 milljónir en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.251 milljón. Mismunurinn skýrist af því að fjármagnsliðir hafa hækkað mikið og umfram áætlanir. Séu þeir teknir út fyrir sviga er niðurstaða tímabilsins betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, þar sem tekjur voru meiri og rekstrargjöld lægri.

Á fimmtudag verður ráðist í skuldabréfaútgáfu til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu Árborgar. Um er að ræða sjálfbærniskuldabréf þar sem tekið verður við tilboðum fyrir allt að þrjá milljarða, en fjármagninu er ætlað að fjármagna umhverfisleg og félagsleg verkefni.

„Við höfum í rauninni ekki talið okkur geta farið af stað í útboð fyrr en við værum komin með gott utanumhald um verkefnið, hvernig það lítur út, hverjar áætlanirnar eru, hvaða markmið við erum að setja okkur. Eins líka að við værum þá öll bæjarstjórnin að standa saman að því verkefni, því að það er mjög mikilvægt að samstaða sé um þær aðgerðir sem að á að fara í,“ segir Fjóla, en hún bindur miklar vonir við útboðið. Að því loknu ætti fjármögnun sveitarfélagsins að vera í góðu jafnvægi.

„Sveitarfélag er auðvitað svolítill olíuprammi, þú snýrð rekstrinum ekkert við á punktinum, þetta tekur tíma. En aðgerðir okkar í rekstrinum eru nú þegar farnar að skila árangri og það sem er kannski mikilvægast af öllu er að flestir með okkur og tilbúnir í þetta verkefni, sem er mjög jákvætt.“

Nánar er rætt við Fjólu í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.