Frá 2016 hefur aðfluttum umfram brottflutta til Íslands aldrei fjölgað meira. Um er að ræða bæði íslenska ríkisborgara og erlenda ríkisborgara sem flytjast til landsins, í lengri eða skemmri tíma.

Gögn Hagstofunnar um brottflutta og aðflutta ná aðeins aftur til 1986 en þegar önnur gögn stofnunarinnar eru skoðuð, svo sem eins og árleg fjölgun íbúa, má leiða líkum að því að flutningsjöfnuðurinn hefur aldrei í sögu Íslands verið jákvæður í fjölda þeirra sem flytjast til landsins.

Hagstofan vinnur reglulega spá um þróun um fjölda þeirra sem flytja til landsins umfram þá sem flytjast frá landinu. Þótt erfitt sé að spá fyrir um slíkt vegna fjölda forsendna sem geta breyst á stuttum tíma, þá er spáin mikilvæg til að átta sig á því hvaða áhrif íbúafjölgunin, eða fækkunin, hefur á innviðina á Íslandi. Ekki er tekið tillit til þeirra sem fjölga af náttúrulegum orsökum, þá sem fæðast og deyja á Íslandi.

Eitt sem hefur hvað mest áhrif á flutningsjöfnuðinn er efnahagsleg staða landsins í samanburði við önnur lönd, þörfin fyrir vinnuafl, staða gjaldmiðilsins, launaþróun og lífskjörin.

Hvað gerist næstu fjögur árin?

Hér á línuritinu fyrir neðan sést spá Hagstofunnar frá 2016-2025 og raunfjölgun árin 2016 til 2021. Það sést að spárnar eðli máls samkvæmt ekki nákvæmar. En að undanskildu Covid-árinu 2020 er raunfjölgunin ekki fjarri spá Hagstofunnar.

Ef miðspá Hagstofunnar fyrir árin 2022-2025 rætist mun íbúum sem flytjast hingað til lands, umfram brottflutta, fjölga um 23.624 næstu fjögur árin. Ef 2,5 íbúar eru í hverri íbúð þarf 11.812 íbúðir fyrir þetta fólk. Ef hins vegar lágspáin reynist rétt eru íbúðirnar aðeins 2.750. Ef rauntölur eru skoðaðar aftur til 2016 þá er líklegra að raunfjölgunin verði nær miðspá en lágspá Hagstofunnar.

Í síðasta mánuði hækkaði leiguverð um 2,1% milli mánaða og er það mesta hækkunin í næstum tvö ár. Það er til marks um hækkandi fasteignaverð, sem allir þekkja, en auk þess að aðfluttum fari áfram fjölgandi og að minna sé um laust leiguhúsnæði. Búast má við áframhaldandi hækkun í sumar.

En íbúafjölgunin hefur ekki aðeins áhrif á fasteignamarkaðinn. Spítalarnir og leikskólar á höfuðborgarsvæðinu kvarta stöðugt yfir manneklu og skörp íbúafjölgun gæti aukið þann vanda sem þar er. Að auki verður meiri eftirspurn eftir þjónustunni. Sami vandi virðist í uppsiglingu í grunnskólunum á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgunin getur einnig haft áhrif á samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu en fjölgunin árið 2021 var lang mest þar, eða um 53%.

Kreppurnar hafa áhrif

Á jafnaði fluttu fleiri frá Íslandi hverju ári fyrir aldamótin. Íslendingar leituðu í mun meira mæli út fyrir landsteinanna þegar illa áraði í efnahagslífinu og hefur fækkunin aldrei verið meiri en árið 2009 þegar brottfluttir umfram aðflutta voru 4.835. Einnig var verulega fækkun árin 1989-1995, að árinu 1991 undanskildu.