Bandaríska viðskiptaeftirlitið hefur formlega beðið dómara um að stöðva 69 milljarða dala kaup Microsoft á tölvuleikjaframleiðandanum Activision Blizzard. Kaupin yrðu þau stærstu í sögu tölvuleikjaleikjaiðnaðarins en að sögn viðskiptanefndarinnar gætu kaupin dregið úr samkeppni.
Tillaga viðskiptaeftirlitsins kemur í kjölfar ákvörðun bresks dómstóls um að stöðva söluna en Evrópusambandið er þegar búið að samþykkja kaupin. Réttarhöld vegna málsins munu hefjast í Bandaríkjunum nú í ágúst.
Fyrirhugaða yfirtaka Microsoft á Activision hefur klofið hið alþjóðlega samfélag eftirlitsaðila en til þess að samningurinn fari í gegn þurfa samningsaðilar samþykki eftirlitsstofnana í Bretlandi, ESB og Bandaríkjunum. Bandaríska viðskiptaeftirlitið hefur farið fram á bráðabirgðalögbann verði sett á á meðan gengið er úr skugga um það hvort kaupin brjóti í bága við bandarísk samkeppnislög.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti kaupin á þeim grundvelli að með samningnum hafi Microsoft lofað evrópskum neytendum aðgangi að tölvuleikjum Activision í gegnum streymisþjónustu fyrirtækisins.
Samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands stöðvaði hins vegar samninginn í apríl og lýsti áhyggjum yfir því að yfirtakan myndi draga úr nýsköpun og leikjavali fyrir notendur. Microsoft og Activision hafa bæði gagnrýnt þessa ákvörðun og áfrýjað hana.
Fyrirhugaði samningurinn er talinn mikilvægur í augum Microsoft en fyrirtækið er í harðri samkeppni á tölvuleikjamarkaðnum við Sony. Activision gefur meðal annars út leikina Call of Duty og Candy Crush.
Microsoft hefur sagt að framtíð tölvuleikja liggi í áskriftarþjónustu þar sem leikmenn spili tölvuleiki í gegnum svokallaða „skýjaspilun“, frekar en í gegnum kaup á einstökum leikjum.