Staða Icesave-samnings eftir 6 ár þegar að afborganir af Icesave-láni hefjast verður 319 milljarðar króna miðað við fasta vexti og 238 milljarðar miðað við breytilega vexti.
Þetta kemur fram í skýrslu IFS Greiningar um nýtt samningstilboð vegna Icesave reikninganna. Í útreikningum IFS er gert ráð fyrir að gengi krónunnar gangvart pundum og evrum verði hið sama og 24. febrúar 2010.
Nýja tilboðið er því um 81 milljarði hagstæðara en það fyrra þegar að greiðslur af eftirstöðvum Icesave hefjast eftir 6 ár, að sögn IFS. Þá telur IFS að ef framgreind fjárhæð sé núvirt miðað við breytilega vexti sé tilboðið hagstæðara sem nemur 67 milljörðum króna, ef núvirt er miðað fasta vexti 5,55% er sparnaðurinn 58 milljarðar króna.
„Ef einungis er horft á greiðslur frá ríkissjóði en ekki tryggingasjóði, þ.e. greiðslur sem hefjast eftir 2016, er sparnaðurinn minni,“ segir í skýrslu IFS.
„Ástæða þess er að langtíma vextir eru háir en þeir gefa vísbendingu um vaxtastig í framtíðinni. Ef greiðslur ríkissjóðs eru núvirtar með eingreiðsluvöxtum reiknuðum út frá markaðsvöxtum (Euro-Swap, Pund-Swap), þá er nýja tilboðið 50 milljörðum króna hagkvæmara. Núvirði greiðslna ríkissjóðs á tímabilinu frá 2016 til 2024 nemur 263 milljörðum króna með föstum vöxtum og 213 milljörðum. með breytilegum vöxtum.“
Hraðari endurgreiðsla skiptir enn meira máli
Þá segir IFS að þar sem fyrstu tvö árin séu vaxtalaus hafi hraðari endurgreiðsla meiri áhrif en í eldra tilboði. Ef tækist að semja um að íslenski innlánstryggingarsjóðurinn hafi forgang fram yfir kröfur Hollendinga og Breta, myndu endurheimtur verða 100% og endurgreiðslur yrðu fyrr. Þá yrði skuldin vegna Icesave eftir 6 ár, 80 milljarðar sem stafar af stórum hluta af veikingu krónunnar frá 22. apríl 2009, þegar kröfur voru umreiknaðar yfir í íslenskar krónur.
„Margir breskir og hollenskir sparifjáreigendur telja sig hafa verið blekktir til að leggja sparifé sitt í banka sem stóð verr en upplýsingar gáfu til kynna,“ segir í skýrslu IFS
„Ekki er líklegt að engin kostnaður muni falla á íslenska skattgreiðendur. Útfærsla á síðasta tilboði sem fæli í sér hraðari endurgreiðslur myndi leiða til góðrar niðurstóðu fyrir íslendinga.“