Hæstiréttur sýknaði Reykjavíkurborg í dag af kröfum Sérverks ehf. um endurgreiðslu á rúmum 120 milljónum króna sem greiddar voru vegna innviðagjalda sem fyrirtækið greiddi borginni í tengslum við uppbyggingu í Vogabyggð.
Sérverk taldi að álagning innviðagjaldsins fæli í sér ólögmæta gjaldtöku sem fælist í því að samningur um greiðslu þess ætti sér ekki stoð í lögum, en samningsfjárhæðin var einhliða ákveðin af Reykjavíkurborg og taldi fyrirtækið að aðstöðumunur ríkti milli samningsaðila.
Hæstiréttur hafnaði framangreindum málsástæðum og byggði niðurstöðu sína á því að greiðsluskyldan hafi hvílt á gagnkvæmum einkaréttarlegum samningi og gerður á markaðslegum forsendum. Var ekki talið að með samkomulaginu hafi verið brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um jafnræði og meðalhóf.
Dómur Landsréttar frá því í nóvember í fyrra var staðfestur og Sérverki gert að greiða Reykjavíkurborg 1,2 milljónir króna í málskostnað.