Invit hefur samið um kaup á 100% hlut í Austurverk og hafa kaupin nú þegar tekið gildi. Í tilkynningu segir að markmið fjárfestingarinnar sé að styrkja stöðu Austurverks og innviðauppbyggingu um land allt.
Invit var stofnað fyrr á þessu ári af framtakssjóði í rekstri Alfa Framtaks og teymi Gröfu & Grjóts.
Austurverk var stofnað árið 2014 af feðgunum Stefáni Halldórssyni, Reyni Hrafni Stefánssyni og Steinþóri Guðna Stefánssyni. Félagið er staðsett á Egilsstöðum og sérhæfir sig í gatnagerð, lagnavinnu í jörðu, snjómokstri, yfirborðsfrágangi og annarri mannvirkjagerð.
Félagið mun áfram starfa undir nafninu Austurverk, en verður stutt af Invit.
Eins og fyrr segir var tilkynnt var um stofnun Invit fyrr á þessu ári, en félagið hefur það meginhlutverk að sameina reynd íslensk innviðafyrirtæki undir einni regnhlíf. Dótturfélög Invit eru nú Grafa og Grjót, Steingarður, Austurverk og Undirstaða, en auk þess voru tæki og starfsmenn keyptir frá Snóki verktökum. Alls starfa um 100 manns hjá samstæðunni og telur floti samstæðunnar um 100 tæki á borð við gröfur og vörubíla.
„Langtímahugsun er lykillinn í starfsemi Invit og er því verið að undirbúa félagið og dótturfélög þess til þess að takast á við þær langtímaáskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir í innviðauppbyggingu. Með reyndum stjórnendum, öflugum tækjaflota og fjárfestingum í upplýsingatækni má festa dýrmæta þekkingu í sessi og auðvelda yfirfærslu þekkingar milli kynslóða,“ segir í tilkynningu.