Húsnæðisverð hefur hækkað hratt víða um heim frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Tólf mánaða hækkun húsnæðiverðs mældist að meðaltali 10,2% í 56 löndum í úttekt ráðgjafafyrirtækisins Knight Frank fyrir fyrsta ársfjórðung 2022. Raunhækkun húsnæðisverðs minnkaði þó fram síðustu úttekt.

Ísland situr í sjöunda sæti listans þegar kemur að nafnhækkun en hún mældist 19,1% frá byrjun apríl 2021 til loka mars 2022 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands sem Knight Frank styður sig við. Þegar kemur að raunhækkun er Ísland hins vegar í fimmta sæti listanum en húsnæðisverð hækkaði um 11,6% að raunvirði á tímabilinu.

Tyrkland leiðir hækkanir en tólf mánaða hækkun húsnæðisverðs fram að mars síðastliðnum mældist 110% en sökum mikillar verðbólgu nemur raunhækkunin tæplega 30%. Auk Tyrklands var raunhækkun húsnæðisverðs aðeins hærri í Tékkland, Slóvakíu og á eyjunni Jersey í Ermarsundinu en á Íslandi.

Í áttunda sæti voru Bandaríkin en nafnhækkun húsnæðisverðs þar mældist 18,8% og 10,9% að raunvirði. Húsnæðisverð í Bretlandi hækkaði um 9,8% að nafnvirði. Hækkun húsnæðisverðs var á bilinu 2,1%-12,8% á hinum Norðurlöndunum. Í tilviki Finnlands lækkaði húsnæðisverðs um 3,5% að raunvirði á tímabilinu.

Knight Frank gaf einnig nýlega út sambærilega úttekt sem náði til 150 borga. Reykjavík sat þar í 21. sæti með 21,1% hækkun á húsnæðisverði.