Bandaríska fjármálafyrirtækið Jane Street krefur málmkauphöllina í London, London Metal Exchange, um tvo milljarða íslenskra króna í skaðabætur vegna ákvörðunar kauphallarinnar um að stöðva tímabundið viðskipti með nikkel í mars vegna fordæmalausra verðhækkana, segir í frétt Bloomberg.

Kauphöllin stöðvaði viðskipti með nikkel þann 8. mars og aflýsti umdeildum 500 milljarða króna viðskiptum sem höfðu farið fram vegna mikilla hækkana á nikkel í kringum skortstöðu kínverska auðjöfursins Xiang Guangda.

Jane Street fylgir í spor fjármálafyrirtækisins Elliot Investment Management sem hefur krafið málmkauphöllina um 59 milljarða íslenskra króna vegna sömu ákvörðunar í mars. Kauphöllin hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir það hvernig hún kom að málum í mars þegar verð á nikkeli ruku upp og eru innlendir eftirlitsaðilar meðal annars að rannsaka aðgerðir kauphallarinnar.

Á mánudag sagði Hong Kong Exchanges & Clearing Ltd., eigandi bresku kauphallarinnar, í yfirlýsingu að krafan væri tilhæfulaus og yrði mótmælt kröftuglega.