Bandaríski bankarisinn JPMorgan Chase mun taka yfir bróðurpart starfsemi hins umsetna First Republic Bank samkvæmt samkomulagi við yfirvöld eftir að þau tóku þann síðarnefnda yfir nú í morgunsárið.

Allar innstæður First Republic upp á alls um 92 milljarða dala færast yfir til JPMorgan, sem auk þess mun kaupa flestar eignir hins nýfallna banka, meðal annars 173 milljarða dala útlánasafn hans og verðbréfasafn upp á 30 milljarða dala.

Samkvæmt samkomulaginu mun tryggingasjóður innstæðueigenda vestanhafs (e. FDIC) á móti taka á sig hluta af útlánatapi hinna yfirfærðu lána auk þess að veita JPMorgan 50 milljarða dala fjármögnun fyrir kaupunum. Sjóðurinn áætlar að hlutdeild sín í væntu útlánatapi verði um 13 milljarðar dala.

Fall First Republic í dag er annað stærsta gjaldþrot viðskiptabanka í sögu Bandaríkjanna á eftir Washington Mutual, sem féll í alþjóðlegu fjármálakrísunni 2008 með ríflega 300 milljarða dala efnahagsreikning, ígildi tæplega 400 milljarða dala á verðlagi dagsins í dag.

Þrír stórir bankar hafa raðað sér fyrir neðan Washington Mutual á topplistann yfir stærstu slíku gjaldþrotin síðustu tvo mánuði eftir að óvænt fall Silicon Valley Bank hrundi af stað hrinu bankaáhlaupa.

JPMorgan Chase hefur samkvæmt frétt Wall Street Journal um málið verið þekktur fyrir að láta til sín taka á krísutímum sem þessum enda stærsti banki landsins, og tók meðal annars yfir Washington Mutual á sínum tíma. Eftir markaðsvirði er hann sá stærsti í heimi með ríflega 400 milljarða dala markaðsvirði og tífalt hærri upphæð í heildareignir.