Hæstiréttur sýknaði í dag Kára Stefánsson forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar í máli sem verktakafyrirtækið Fonsi ehf. höfðaði gegn honum í tengslum við byggingu á einbýlishúsinu að Fagraþingi 5 í Kópavogi.
Fonsi ehf. stefndi Kára til greiðslu 10.695.471 vegna tveggja reikninga. Kári taldi verkið gallað og því neitaði hann að greiða reikningana tvo, en alls gaf Fonsi ehf. út 22 reikninga vegna verksins.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Kára bæri að greiða Fonsa 8.730.606 krónur auk dráttarvaxta og 700.000 krónur í málskostnað.
Í dómi Hæstarétts segir að Kári sé sýknaður af kröfu Fonsa ehf. vegna reiknings nr. 433 að fjárhæð 5.258.417 krónur. Eftir standa 3.472.189 krónur en gagnkrafa Kára vegna dagsekta, sem dómurinn féllst á, er hærri en þeirri fjárhæð nemur.
Hæstiréttur sýknaði því Kára í málinu og dæmdi Fonsa ehf. að greiða 1.500.000 krónur í málskostnað.