Fyrstu 50 leigubílarnir sem gera farþegum kleift að greiða með erlendum kortum byrjuðu að keyra um götur Shanghai fyrir nokkrum vikum síðan og að sögn borgaryfirvalda verða þeir orðnir 1.000 í lok júní.
Bílarnir taka nú bæði við kínversk bankakort og kort frá erlendum fyrirtækjum á borð við Mastercard, Diners Club, JCB, Visa og American Express. Bílstjórar verða einnig með 200 júan, eða um 3.800 krónur, fyrir þá sem notast enn við reiðufé.
Á undanförnum árum hafa greiðsluaðferðir í Kína, líkt og annars staðar, gjörbreyst og verður notkun reiðufjár sífellt sjaldgæfari sjón. Algengt er að Kínverjar greiði með Alipay eða WeChat Pay í gegnum farsíma en WeChat hefur boðið upp á þennan greiðslumáta síðan 2013.
Þetta nýja greiðsluumhverfi hefur auðveldað líf flestallra Kínverja en það er aftur á móti mjög óhentugt fyrir erlenda ferðamenn. Til þess að nýta þessa greiðslumáta þarf að stofna kínverskan bankareikning og eru ekki margir erlendir gestir sem nenna að standa í því fyrir aðeins nokkurra daga ferðalag.
Yang Guoping, stjórnarformaður Dazhong Transportation, segir að leigubílarnir muni einnig bjóða upp á ferðabæklinga á ensku og japönsku. Hann segir að hugmyndin um þessa breytingu hafi komið frá Japan en margir leigubílar þar eru með stafræna skjái sem bjóða upp á margvíslegar greiðsluaðferðir.
„Leigubílaþjónusta er oft fyrsta þjónustan sem erlendir ferðamenn nýta sér eftir að hafa lent í nýju landi. Hún er líka sú þjónusta sem viðskiptavinir greiða alltaf beint fyrir. Þessi breyting mun líka koma til með að hjálpa eldri borgurum,“ segir Yang.
Borgaryfirvöld í Shanghai segja að breytingin muni koma til með að auðvelda lífið fyrir fulltrúa fyrirtækja sem heimsækja borgina í viðskiptaferðum. Í byrjun nóvember mun Shanghai til að mynda halda kínversku innflutningssýninguna (e. The China International Import Expo) í sjöunda sinn.
Búist er við hátt í 150 þúsund þátttakendum frá öllum heimshornum, þar á meðal Íslandi. Í síðustu viku undirrituðu Íslandsstofa og forsvarsmenn sýningarinnar samstarfsyfirlýsingu um áframhaldandi samstarf og þátttöku.
Það er enn óljóst hve mörg íslensk fyrirtæki muni taka þátt í ár en í fyrra mættu BioEffect, Omnom, Ísey, Eimverk, Reykjavik Distillery og fleiri. Óhætt er að segja að þeir sem mæta í ár verða eflaust ánægðir að geta greitt með sömu kortum og þeir nota heima fyrir.