Thorsil ehf. sem frá árinu 2014 hefur unnið að því að reisa kísilmálmverksmiðju í Helguvík, var um síðustu áramót með neikvætt eigið fé sem nemur 480 milljónum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2022.
Frá árinu 2014 hefur félagið eignfært undirbúningskostnað. Á árunum 2019 til 2021 var þessi kostnaður afskrifaður að hluta og í ársreikningi síðasta árs hefur hann verið afskrifaður að fullu.
Á árinu 2016 gerðu áætlanir félagsins ráð fyrir að reist yrði 54 þúsund tonna kísilmálmverksmiðja í Helguvík og hljóðaði kostnaðaráætlunin upp á 32 milljarða króna. Gerði félagið fjölda samninga m.a. um kaup og flutning á raforku, sem og samninga um lóð og hafnaraðstöðu. Mat á umhverfisáhrifum var klárað og gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi og losunarleyfi fyrir starfsemi verksmiðjunnar.
Stóra hindrunin
Stóra hindrunin hefur verið fjármögnun verksmiðjunnar. Um miðjan september árið 2016 var greint frá því í Viðskiptablaðinu að fjármögnun hefði dregist. Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, sagðist þá vonast til þess að fjármögnun myndi klárast á næstu vikum.
Nú sjö árum síðar hefur enn ekki tekist að ljúka fjármögnun verkefefnisins og allir samningar sem gerðir voru eru fallnir úr gildi.
„Óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur félagsins og er fjármögnun nauðsynleg til að félagið geti talist rekstrarhæft," segir í skýrslu stjórnar Thorsil.
Félagið tapaði 112 milljónum króna á síðasta rekstrarári og 335 milljónum árið 2021. Í árslok 2022 nam hlutafé félagsins 852 milljónum króna en hlutaféð er í eigu Thorsil Holding hf.
Stærsti hluthafinn í Thorsil Holding er Northsil með 50,10%. Northsil er að stærstum hluta í eigu John Fenger, sem jafnframt er stjórnarformaður Thorsil. Strokkur Silicon ehf. á tæp 33,79% en eigendur félagsins eru Eyþór Laxdal Arnalds og Hörður Jónsson. Artica Finance á 12,73%, Mt. höjgaard A/S 1,8% og Arion banki 1,58%.