Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 31,% fylgi í nýrri könnun Gallup. Flokkurinn tekur stórt stökk frá könnun sem gerð var í október síðastliðnum en þá mældist flokkurinn með 21,2%.
„Ég er fyrst og fremst ánægð að sjá Sjálfstæðisflokkinn mælast sem langstærsta flokkinn í borgarstjórn og að Sjálfstæðisflokkurinn sé sá flokkur sem flestir borgarbúar bera mest traust til,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
„Ég hugsa að fylgisaukninguna megi rekja bæði til starfa okkar í Sjálfstæðisflokknum en jafnframt vandræða meirihlutans," segir Hildur. „Við höfum lagt ríka áherslu á málefnalega gagnrýni en jafnframt kynnt til leiks nýjar lausnir og hugmyndir. Sem dæmi má nefna nýjar hugmyndir í húsnæðismálum, þar sem við höfum lagt áherslu á að brjóta þurfi nýtt land."
„Margt af því sem við höfum varað við undanfarin ár hefur nú raungerst í rekstri og starfsemi borgarinnar. Ég hugsa að kjósendur séu að vakna upp við þann veruleika. Þá skiptir máli að koma fólki fyrir sjónir sem raunhæfur valkostur sem ræður við verkefnið. Við erum sannarlega reiðubúin í þau verkefni og þá tiltekt sem reynist nauðsynleg í borginni næstu árin."
Samkvæmt könnunni er meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar fallinn en miðað við niðurstöðurnar fengi hann 10 borgarfulltrúa í stað þeirra 13 sem hann hefur í dag. Hildur segir þetta stór tíðindi.
„Það sem ég les í niðurstöðurnar er að fólk er að kalla eftir breytingum. Það eru fimmtán ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn var í meirihluta í borginni og það er kominn tími á nýjan meirihluta, sem starfar frá miðju til hægri, meirihluta sem leggur áherslu á raunhæfar lausnir í borgarmálum, þar sem fólk hefur frelsi og val um það hvernig það vill lifa sínu lífi og freista hamingjunnar á sínum eigin forsendum.
Það þarf að leysa húsnæðisvandann og taka til í rekstri borgarinnar. Leikskóla – og daggæslumálin eru auðvitað í lamasessi og samgönguvandinn eykst ár frá ári, þannig að það er sannarlega þörf nýrri nálgun við stjórn borgarinnar. Það mun taka tíma að vinda ofan af því sem aflaga hefur farið og því brýnt að hafist sé handa sem fyrst.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.