Sjóðastýringafyrirtækið Capital Group, stærsti erlendi hluthafi Íslandsbanka, er kominn með 5,1% eignarhlut í Íslandsbanka, sem er yfir 11 milljarðar króna að markaðsvirði, eftir að hafa bætt við sig um 0,8% hlut í bankanum í september.

Eignarhlutur Capital Group í Íslandsbanka fór yfir 5% flöggunarmörkin á fimmtudaginn síðasta, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sjóðir í stýringu Capital Group áttu samtals um 4,3% hlut í upphafi septembermánaðar. Sé miðað við meðalgengi hlutabréfa Íslandsbanka í september má ætla að Capital Group hafi keypt hluti í bankanum fyrir 1,7-1,8 milljarða króna í síðasta mánuði.

Capital Group var meðal fjögurra hornsteinsfjárfesta í frumútboði Íslandsbanka í júní 2021 og átti eftir það um 3,85% hlut. Sjóðastýringafyrirtækið tók einnig þátt í seinna útboði Bankasýslu ríkisins í mars 2022. Í kjölfar þess áttu sjóðir Capital Group 5,06% í bankanum.

Capital Group seldi meira en 1% hlut á fyrsta fjórðungi þessa árs og fór með um 3,8% hlut í lok mars síðastliðins. Félagið bætti við sig um 0,5% hlut á öðrum fjórðungi og áttu sjóðir í stýringu Capital Group samtals um 4,3% hlut í lok júní.

Stærstu hluthafar Íslandsbanka

Hluthafi Fjöldi hluta Í % Staðfest
Ríkissjóður Íslands 850.000.007 42,50% 31.8.2023
Gildi lífeyrissjóður 158.870.152 7,94% 31.8.2023
LSR 155.825.551 7,79% 18.9.2023
LIVE 131.271.224 6,56% 26.9.2023
Capital Group 102.102.194 5,11% 28.9.2023
Brú 63.279.261 3,16% 31.8.2023
Stapi 51.009.669 2,55% 26.9.2023
Vanguard 44.200.483 2,21% 31.8.2023
Birta 32.495.810 1,62% 31.8.2023
Frjálsi 30.194.765 1,51% 15.9.2023
RWC 24.422.178 1,22% 31.8.2023
Lífsverk 23.478.607 1,17% 31.8.2023
Almenni 20.484.090 1,02% 31.8.2023
Heimild: Íslandsbanki