Landsvirkjun stefnir á að auka erlendar fjárfestingar en greint var frá þeirri framtíðarsýn í málstofu á Hringborði Norðurslóða síðastliðinn föstudag. Aviaaja Karlshøj Knudsen, framkvæmdastjóri NunaGreen í Grænlandi, var þar með erindi þar sem hún fór yfir möguleikann á orkuöflun þar í landi en Landsvirkjun skoðar meðal annars samstarf í Grænlandi.
NunaGreen varð til fyrir tveimur árum þegar stjórnvöld ákváðu að einblína á endurnýjanlega orku í stað olíuöflunar. Í dag er fyrirtækið með tvær vatnsaflsvirkjanir í undirbúningi, auk þess sem von er á öðru verkefni undir lok árs.
Að sögn Aviaaja hefur fyrirtækið meðal annars horft til annarra landa í þeirra vegferð. Þá er horft til samstarfs við önnur lönd við það að koma virkjunum í gagnið, enda hagkerfi Grænlands minna en margra annarra landa og íbúar talsvert færri.
Landið sjálft er þó stórt og talsverðir möguleikar í orkuöflun. Á það einna helst við um vatnsafl en reiknað er með að virkjanir þar í landi gætu framleitt um 20 terravattstundir af orku á ári, sem er svipað og raforkuvinnsla Íslands í dag.
„Stefna ríkisstjórnar Grænlands er að horfa til endurnýjanlegrar orku og gera hana að mikilvægum hluta grænlenska hagkerfisins í framtíðinni. Breið samstaða er um þessa stefnu og nú stendur yfir mikil vinna í tengslum við löggjöf og regluverk,“ sagði Aviaaja.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.