Greint var frá framtíðarsýn Landsvirkjunar í málstofu á Hringborði Norðurslóða síðastliðinn föstudag en Landsvirkjun horfir nú til þess að auka fjárfestingar erlendis. Á málstofunni voru sömuleiðis forsvarsmenn orkufyrirtækja í Noregi, Kanada og Grænlandi.
Bjørn Holsen, framkvæmdastjóri hjá Statkraft í Noregi, fór yfir sögu fyrirtækisins en Statkraft er í ríkiseigu líkt og Landsvirkjun, þó sögu norska fyrirtækisins megi rekja lengra aftur í tímann. Þá er umfang erlendrar starfsemi Statkraft talsvert meira en Landsvirkjun áformar sem stendur.
Frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á uppbyggingu erlendis og innleitt nýja tækni samhliða. Í dag er Statkraft með starfsemi í ríflega tuttugu löndum og hefur komið að þróun og uppbyggingu orkuverkefna víða í Evrópu, Suður-Ameríku og Asíu en Statkraft hefur byggt virkjanir með uppsett afl upp á ríflega 20 gígavött (GW). Til samanburðar var uppsett afl allra virkjana á Íslandi í kringum 3,1 GW árið 2021.
Í erindi sínu talaði Bjørn um fjárhagslegan ávinning slíkra verkefna en markmiðið væri að hámarka virði fyrir eigandann, norska ríkið. Óhætt er að segja að starfsemi utan Noregs sé meðal atriða sem skilað hafa árangri en frá árinu 1992 hefur markaðsvirði fyrirtækisins farið úr 12 milljörðum norskra króna og í hátt í 400 milljarða norskra króna. Á sama tíma fór hlutdeild erlendrar starfsemi, mæld í uppsettu afli, úr því að vera engin og upp í um þriðjungshlut.
Vöxturinn hefur þó ekki komið án áskorana en sum verkefni hafa skilað minni árangri en önnur. Bjørn segir í samtali við Viðskiptablaðið að allri svona vegferð fylgi einhvers konar bakslög.
„Þess vegna þarf maður að vinna með gott eignasafn af verkefnum, þar sem eru fleiri sigrar en bakslög, en það er meira hugarfarið. Maður þarf að sætta sig við að það muni koma bakslög í ákveðnum verkefnum og þá er mikilvægt að ná árangri í öðrum. Ég tel að það hafi verið okkar vegferð, við höfum náð að greina árangur verkefnanna og einblína ekki um of á bakslögin,“ segir Bjørn.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.