Hjólaframleiðandinn Lauf Cycles hefur lokið tæplega 500 milljón króna fjármögnunarlotu. Fyrirtækið segir þetta mikilvægt skref en stefnt er að nýta fjármagnið til að efla frekari vöruþróun, styðja við sókn sína á alþjóðamarkaði og auka framleiðslugetu.

„Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessum áfanga og þakklát fyrir traust fjárfesta okkar,” segir Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Cycles, í tilkynningu.

„Fjármögnunin gerir okkur kleift að hraða þróun nýrra vara, auka framleiðslugetu og sækja af enn meiri krafti inn á erlenda markaði. Þetta eru spennandi tímar.“

Lauf hefur þegar skapað sér sess á alþjóðlegum markaði fyrir nýsköpun í hjólahönnun, sérstaklega á sviði malar- og götuhjóla en nýverið kynnti félagið sitt fyrsta fjallahjól.

Undanfarin þrjú ár hefur Lauf Cycles unnið að uppsetningu á samsetningarverksmiðju í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum. Lauf segir verksmiðjuna færa félaginu aukið rekstrarhagræði og öryggi, sérstaklega á þeim umbrotstímum sem nú ríkja.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka veitti ráðgjöf við hlutafjáraukninguna, sem var leidd af hluthöfum félagsins, ásamt aðkomu nýrra aðila.