Fyrirætlanir Microsoft um yfirtöku á leikjaframleiðandanum Activision Blizzard eru í uppnámi eftir að samkeppniseftirlitið í Bretlandi (e. CMA) hafnaði áformunum fyrr í dag.

CMA telur yfirtökuna hafa neikvæð áhrif á samkeppnisskilyrði í tölvuleikjaiðnaðinum og segja hana myndu draga úr nýsköpun og úrvali fyrir tölvuleikjaunnendur í Bretlandi. Microsoft hyggst áfrýja ákvörðuninni.

Bíða svara annarra samkeppnisyfirvalda

Ákvörðunin flækir samþykktarferli kaupanna, þar sem tölvuleikjaiðnaðurinn er alþjóðlegur og Microsoft þarf að afla samþykkis samkeppnisyfirvalda víða um heiminn. Bandaríska viðskiptaeftirlitið (e. FTC) og samkeppnisyfirvöld í Evrópu skoða einnig kaupin, en Microsoft vænta svara frá þeim síðarnefndu fyrir 22. maí.

Wall Street Journal greinir frá.