ÁTVR leggst alfarið gegn frumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um að leyfa smærri brugghúsum að selja bjór beint af framleiðslustað. Í umsögn, sem forstjórinn Ívar J. Arndal, skrifar undir, er haldið því fram að frumvarpið nái mun lengra en í sambærilegum málum í nágrannaþjóðum ásamt því að skilgreiningin á framleiðslustað sé of víðtæk.

Í greinargerð frumvarpsins, sem var lagt fram í breyttri mynd byrjun apríl, segir að markmiðið sé að gera smærri áfengisframleiðendum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað og styðja þannig við smærri brugghús, sérstaklega á landsbyggðinni. Tekið er fram að frumvarpið eigi ekki að hrófla við hlutverki ÁTVR heldur veita þrönga undanþágu frá einkaleyfi ríkisfyrirtækisins.

ÁTVR segir að þetta standist ekki skoðun. Verði frumvarpið að lögum þá opnist fyrir markaðslögmálin í smásölu áfengis með tilheyrandi samkeppni, söluhvötum og hagnaðardrifinni smásölu áfengra drykkja. „Augljóst er að smásölustöðum áfengis hér á landi mun stórfjölga verði frumvarpið að lögum.“

Bæði í greinargerðinni og umsögninni er vísað til þess að sala beint frá býli hafi verið leyfð í Finnlandi árið 2018. ÁTVR segir að frumvarpsdrögin miklu lengra í að opna á smásölu áfengis en gert var í Finnlandi. Gengið sé of langt í að opna á smásölu áfengis „í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á grundvelli EES samningsins“. Auk þess séu forsendur er varða markaðsstærð og umfang ríkiseinsölunnar „gjörólíkar aðstæðum hér á landi og að mati ÁTVR með öllu ósamanburðarhæfar“.

ÁTVR telur bæði efni og fyrirkomulag sölu á framleiðslustað hvort tveggja óskýrt og alltof víðtækt. Þá sé ekki að finna nákvæma skilgreiningu á „framleiðslustað“ sem gæti því allt eins verið öldurhús eða stórmarkaður á höfuðborgarsvæðinu að mati ÁTVR.

„Það er einmitt þróunin sem orðið hefur í Finnlandi. Frumvarpið opnar möguleika fyrir sniðgöngu sem að mati ÁTVR yrði án efa nýtt til fulls.“

Hætta að drykkjan verði ekki hluti af fræðsluferðum

ÁTVR skrifaði á sínum tíma 25 blaðsíðna umsögn í byrjun árs 2021, stuttu eftir að upphaflega frumvarpið var lagt fram. Að þessu sinni vísar forstjóri ÁTVR til 350 blaðsíðna skýrslu á vegum sænsku ríkisstjórnarinnar um efnið sem var unnin í millitíðinni. Þar sé meðal annars lagt til að sala beint frá býli verði byggð á röksemdum og sjónarmiðum um eflingu ferðamannaiðnaðar þar sem áherslan verði á heimsóknir ferðamanna og annarra á framleiðslustaðinn sjálfan en ekki smásöluna sjálfa, t.d. með fræðsluferðum um framleiðslustaðinn eða fyrirlestrum um framleiðsluna.

„Í fyrirliggjandi frumvarpi er engin slík skilyrði að finna heldur mætti handhafi leyfis til sölu á framleiðslustað selja öllum sem náð hafa tilskyldum aldri áfengi. Augljóst er að mikill meirihluti sölunnar yrði til viðskiptamanna sem myndu koma á framleiðslustaðinn í þeim eina tilgangi að versla áfengi sem stæðist ekki kröfur EES-réttarins til einkaleyfis ÁTVR eða reglur um bann við mismunun.“

Afnám einkaleyfis ef annað frumvarpið fer í gegn

Auk umrædds frumvarps um sölu á framleiðslustað lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp um að heimilt verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Síðarnefnda frumvarpinu er ætlað að jafna stöðu innlendrar og erlendrar vefverslana.

„Að mati ÁTVR er augljóst að ef annað eða bæði frumvörpin verða lögum myndi það leiða til þess að einkaréttur ÁTVR líður undir lok þar sem ÁTVR uppfyllir ekki lengur skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu. Hvort sem um vefverslun með áfengi eða smásölu áfengis á framleiðslustað er að ræða þá er í báðum tilvikum lagðar til grundvallarbreytingar á þeirri áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í heila öld sem byggja á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem er grundvöllur heimildar íslenska ríkisins til reksturs ríkiseinkasölu samkvæmt sérstakri yfirlýsingu við EES- samninginn,“ segir í umsögn ÁTVR.

Sjá einnig: „Þetta rugl er náttúrulega bara búið“

Ívar ítrekar orð sín um að valið standi því um að viðhalda núverandi fyrirkomulag í áfengismálum eða leggja áfengisstefnuna til hliðar og gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa. Ekki verði bæði sleppt og haldið.

„Frumvarp þetta felur í sér stefnubreytingu frá gildandi áfengisstefnu sem myndi, verði frumvarpið að lögum, leiða til afnáms einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi. Í upphafi skyldi endinn skoða,“ segir í lok umsagnarinnar sem Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, undirritar.