Hlutabréf í Amaroq Minerals hækkuðu um 5,3% í Kauphöllinni í dag í 674 milljón króna viðskiptum. Gengi málmleitarfélagsins hefur aldrei verið hærra en dagslokagengið var 101,5 krónur sem er hækkun úr 96,4 krónum milli daga.
Amaroq greindi frá niðurstöðum tilraunaborana í Kauphallartilkynningu fyrir opnun markaða í morgun. Þar kom meðal annars fram að félagið uppgötvaði nýja gullæð þar sem gullstyrkur mælist hærri en nokkru sinni áður, eða 256 grömm í hverju tonni, sem Amaroq segir að eykur til muna mögulegt vinnslusvæði í Nalunaq.
„Þetta er hæsti gullstyrkur sem hefur fengist úr borunum í Nalunaq frá stofnun Amaroq Minerals árið 2017. Þessar niðurstöður auka þróunarmöguleika okkar til muna og staðfesta að gullsvæðið nær lengra og er víðfeðmara en áður var talið,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni, forstjóri Amaroq í tilkynningunni.
„Þetta er hæsti gullstyrkur sem hefur fengist úr borunum í Nalunaq frá stofnun Amaroq Minerals árið 2017. Þessar niðurstöður auka þróunarmöguleika okkar til muna og staðfesta að gullsvæðið nær lengra og er víðfeðmara en áður var talið,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni, forstjóri Amaroq í tilkynningunni.
Ölgerðin hækkar í aðdraganda uppgjörs
Hlutabréf í Ölgerðinni hækkuðu um 4% í 140 milljón króna viðskiptum í dag.
Ölgerðin birtir uppgjör annars ársfjórðungs eftir lokun markaða á morgun en fyrirtækið hagnaðist um 963 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt árshlutareikningi. Til samanburðar nam hagnaðurinn 521 milljón króna á sama tímabili í fyrra og jókst því um 85%.
Við ársuppgjör síðasta fjárhagsárs sagði Ölgerðin að fjölgun ferðamanna til Íslands hafi leitt til aukinna umsvifa á hótel- og veitingamarkaði og skilaði það meðal annars betri afkomu.
Ölgerðin hagnaðist um 2,5 milljarða á síðasta rekstrarári og jók hagnað um 50%. Sala á bjór í kútum jókst um 48% í lítrum talið á árinu.
Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar komu 1,2 milljónir ferðamanna til landsins í fyrra en horfur eru á að þeir verði yfir 2 milljónir í ár.
Iceland Seafood hækkað um 20%
Hlutabréf Iceland Seafood hækkuðu einnig í dag en gengi félagsins hefur verið á stöðugri uppleið frá miðjum september.
Hlutabréf félagsins hafa nú hækkað um 20% síðastliðinn mánuð en undir lok síðasta mánaðar tilkynnti Bjarni Ármannsson forstjóri um starfslok og tekur Ægir Páll Friðbertsson fyrrum framkvæmdastjóri Brims við félaginu 1. nóvember.
Samhliða starfslokum Bjarna seldi Sjávarsýn, fjárfestingarfélag hans, allan 10,8% eignarhlut sinn í félaginu til útgerðarfélagsins Brims á 1.644 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 5,3 krónur á hlut sem var í samræmi við gengi félagsins á þeim tíma.
Hlutabréf Iceland Seafood hækkuðu um 2,4% í dag og var dagslokagengið 6,4 krónur.
Arion Banki hækkaði um 2,29% í 286 milljón króna veltu á meðan Kvika hækkaði um rúm 2% í 481 milljón króna veltu. Gengi Íslandsbanka stóð í stað.
Styttist í uppgjör hjá Marel
Gengi Marels stóð í stað í dag eftir hækkanir tvo daga í röð. Dagslokagengi Marel var 387 krónur líkt og í gær en gengið stóð í 377 krónum fyrir helgi.
Marel birtir árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs undir lok októbermánaðar en hlutabréf Marel, sem hafa lækkað um 20% á árinu, tóku dýfu í maí þegar uppgjör fyrsta ársfjórðungs birtist.
Gengið fór undir 500 krónur og féll um 17,6% á einum degi. Markaðsvirði Marel féll um 80 milljarða króna sama dag.
Í uppgjörinu kom fram að Marel hagnaðist um 9,1 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 1,35 milljörðum króna miðað við gengið í lok mars.
Til samanburðar hagnaðist félagið um 21,7 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra.
Mótteknar pantanir námu 362,6 milljónum evra samanborið við 421,7 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Stóð pantanabókin í 590,4 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs og dróst saman um 6% milli ára.
Síminn hækkaði um 2,83% í 82 milljón króna viðskiptum en greint var frá því eftir lokun markaða í gær. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafnaði því að taka kæru Símans vegna ákvörðunar SKE um að hann skuli selja Nova enska boltann í heildsölu fyrir.
Eina skráða félagið sem lækkaði á markaði var Nova en gengi félagsins fór niður um 0,25% í 22 milljón króna viðskiptum.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,84% og var heildarvelta á markaði 3 milljarðar.