Samfélagsmiðillinn TikTok hefur stöðvað netverslunarþjónustu sína í Indónesíu í samræmi við ný lög sem tóku þar í gildi klukkan tíu í morgun og banna netsölu í gegnum samfélagsmiðla. Ríkisstjórn Indónesíu segir að með nýju lögunum vilji hún vernda smásala og netsala í landinu.
Árið 2021 varð Indónesía fyrsta landið til að innlima netverslunarþjónustu samfélagsmiðilsins og varð fljótlega einn stærsti markaður í heimi fyrir netverslun í gegnum TikTok.
Ákvörðunin kom í kjölfar þess að Joko Widodo, forseti Indónesíu, sagði í síðasta mánuði að það þyrfti að fara varlega með rafræn viðskipti og það þyrftu að vera reglugerðir í landinu.
Viðskiptaráðherra Indónesíu segir að samfélagsmiðlar sem starfa í landinu hafi eina viku til að fara eftir nýju reglunum eða eiga á hættu að missa starfsleyfi í landinu. „Nú geta rafræn viðskipti ekki orðið að eigin samfélagsmiðli. Nú eru þessi tvö hugtök aðskilin.“
Netverslun í Indónesíu hefur meira en sexfaldast frá árinu 2018 og á næsta ári er áætlað að salan muni nema 44 milljörðum dala, samkvæmt seðlabanka Indónesíu.
Um 278 milljónir búa í Indónesíu og af þeim nota 125 milljón manns samfélagsmiðilinn TikTok. Rúmlega sex milljón manns hafa notið góðs af því að selja og kynna vörur á samfélagsmiðlinum. Í samanburði eru um 64 milljón fyrirtæki í landinu sem flokkast frá örfyrirtækjum upp í meðalstór fyrirtæki og samsvara um tveimur þriðju af hagkerfi Indónesíu.