Icelandic Salmon, móðurfélag Arnarlax, reiknar með því að fjárhagsleg áhrif lúsafaraldurs í sjókvíum í Tálknafirði, sem leiddi til þess að farga þurfti löxum í sex kvíum félagsins í síðasta mánuði, muni nema fimm til sex milljónum evra, eða 725-870 milljónum króna miðað við gengi evru í lok september.

Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri félagsins en fjárhagslegu áhrifin munu hafa áhrif á afkomu fjórða ársfjórðungs. Bjørn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon, sagði á fjárfestakynningu í morgun að félagið hafi upplifað líffræðilegar áskoranir í Tálknafirði sem nauðsynlegt hafi verið að bregðast við.

„Við höfum þegar tekið skref til að uppfæra verkferla okkar og draga úr áhættunni á að sambærileg atvik komi upp aftur. Á komandi mánuðum mun fara fram mat á atvikinu þar sem bæði fyrirtækin og yfirvöld taka þátt til að koma upp regluverki til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Frá okkar sjónarhorni er vel mögulegt að ná stjórn á magni lúsar á Vestfjörðum ef gripið er til réttra aðgerða á réttum tíma. Þetta á bæði við um fyrirtækin og yfirvöld,“ sagði Bjørn Hembre á fjárfestakynningu í morgun.

Meiri tekjur en lægri afkoma

Afkoma fyrir greiðslu vaxta og skatta (e. Operational EBIT) dróst saman milli ára en hækkandi kostnaður spilaði þar stórt hlutverk þó hærra markaðsverð hafi komið á móti.

Afkoma nam tæplega þremur milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, eða 427,9 milljónum króna, samanborið við 3,8 milljónir evra árið 2022. Hagnaður á hvert kíló af seldum laxi nam 0,73 evrum (106 krónur) samanborið við 0,99 evrur (139 krónur) árið áður.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var afkoman 18,5 milljónir evra (1,71 evra á kíló) samanborið við 26,8 milljónir evra (2,65 evrur á kíló) í fyrra.

Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 42 milljónum evra, eða 6.079 milljónum króna miðað við gengi evru í lok þriðja ársfjórðungs og jukust um 24% milli ára. Tekur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 113,2 milljónum evra, eða 16,4 milljörðum króna, samanborið við 105,9 milljónir evra á sama tímabili 2022.

Minni uppskera 2024

Í ársfjórðungsuppgjöri félagsins segir að uppskera hafi hafist af fullum krafti á þriðja ársfjórðungi eftir takmarkaða uppskeru á öðrum ársfjórðungi. Alls vann félagið 4.040 tonn á fjórðungnum, samanborið við 3.804 tonn á sama tímabili árið 2022.

Reiknar félagið með 17 þúsund tonna uppskeru fyrir árið 2023 í heild sem er umfram fyrri spár. Förgun laxa í Tálknafirði mun hafa áhrif á uppskeru árið 2024 sem er áætluð 15 þúsund tonn.

„Til lengri tíma litið sjáum við áfram fram á mögulegan vöxt upp að 26.000 tonnum með gildandi leyfum sem studd eru af mikilli eftirspurn eftir laxi sem alinn er á sjálfbæran hátt,“ segir Bjørn Hembre.