Félagið Jájájá ehf. er komið á lista yfir 20 stærstu hluthafa fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins Sýnar. Jájájá átti sléttar þrjár milljónir hluta, eða um 1,12% hlut, í Sýn í lok október sem er 180 milljónir króna að markaðsvirði.
Jájájá ehf. er í eigu Magnúsar Bergs Magnússonar sem hefur rekið íslenskt útibú dönsku húsgagnaverslunarinnar Norr11 á Hverfisgötu 18 með eiginkonu sinni Júlíönu Sól Sigurbjörnsdóttur. Magnús Berg er forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins.
Júlíana Sól er dóttir Ingibjargar Pálmadóttur, eiganda fjárfestingarfélagsins 365 ehf. Ingibjörg á 51% hlut í Norr 11 Íslandi á móti hjónunum ásamt því að eiga fasteignina að Hverfisgötu 18.
Ingibjörg átti áður 365 miðla sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Fréttablaðið. Sýn keypti fjölmiðlana Stöð 2, Bylgjuna og Vísi árið 2017. Sýn höfðaði mál gegn 365, Ingibjörgu og eiginmanni hennar Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2020 vegna meintra brota á samkeppnisákvæði í kaupsamningnum. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp sýknudóm í júlí síðastliðnum. Í síðasta uppgjöri Sýnar kemur fram að félagið hafi áfrýjað málinu til Landsréttar.
Hlutahafahópur Sýnar hefur tekið miklum breytingum á síðustu mánuðum og hafa einkafjárfestar verið að stækka verulega við sig í félaginu. Fjárfestingarfélagið Gavia Invest varð stærsti hluthafi Sýnar eftir að hafa keypt allan eignarhlut Heiðars Guðjónssonar, þáverandi forstjóra, fyrir meira en 2 milljarða króna og á yfir 15% hlut í dag.
Jón Skaftason, fyrrum framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá 365, er forsvarsmaður Gavia. Jón sagði í samtali við mbl.is í kjölfar kaupa Gavia í Sýn að Jón Ásgeir væri ekki tengdur kaupunum með neinum hætti. Jón lét fyrr í ár af störfum sem framkvæmdastjóri Strengs Holding, meirihlutaeiganda Skeljar fjárfestingarfélags, sem var að stórum hluta í eigu 365.
Á hluthafafundi Sýnar, sem fór fram 20. október, voru Rannveig Eir Einarsdóttir og Hákon Stefánsson kjörin í stjórn félagins og Jón varð stjórnarformaður. Hákon Stefánsson er framkvæmdastjóra InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis Grétarssonar, sem er stærsti Gavia. Rannveig og eiginmaður hennar Hilmar Þór Kristinsson eiga fjárfestingarfélagið Fasti sem fer með 7,7% hlut í Sýn.
Stærstu hluthafar Sýnar í lok Október
í % |
14,0% |
10,9% |
10,2% |
8,2% |
7,9% |
7,0% |
5,1% |
3,8% |
3,1% |
3,0% |
2,3% |
1,9% |
1,6% |
1,6% |
1,5% |
1,4% |
1,1% |
1,1% |
1,0% |