Alríkisdómari í Bandaríkjunum vísaði frá dómi á þriðjudag kæru ákæruvalds 17 ríkja sem leidd eru af ríkissaksóknara Texas-ríkis gegn tæknirisanum Google um að hafa átt í ólöglegu samráði við móðurfélag Facebook, Meta Platforms. Dómsmálið varðar meinta misnotkun Google á markaðsráðandi stöðu sinni í netauglýsingabransanum, sem fulltrúar ríkjahópsins telja hafa brotið í bága við samkeppnislög.

Dómarinn sagðist telja aðra ákæruliði dómsmálsins geta átt rétt á sér og málsóknina standa á sæmilegum grunni. Þrátt fyrir það er um nokkurt högg að ræða fyrir saksóknarana sautján. Ásökunin um samráðið við Facebook, sem falist átti að hafa í samningi sem kallaður hefur verið „Jedi blue“, var meðal þeirra stærstu og mest áberandi í málinu.

P. Kevin Castel dómari sagði málflutning ákæruvaldsins hvað samninginn varðaði ekki trúverðugan vegna þess að hann tæki ekki tillit til sterks hvata Facebook sem stórs keppinautar Google á sviði netauglýsinga til að semja á eins hagstæðan hátt fyrir sig, á kostnað keppinautarins, og samfélagsmiðlarisinn gæti.