Hlutabréf í Marel hækkuðu um 2,11% í Kauphöllinni í dag í 892 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréf Marel tóku örlítið við sér í septembermánuði eftir að hafa hríðlækkað í maí eftir árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs. Gengið tók að dala um miðjan síðasta mánuð og náði lágmarki í 377 krónum síðastliðinn föstudag. Dagslokagengið í dag var 387 krónur.
Hlutabréf Iceland Seafood International héldu áfram að hækka og fór gengið upp um 1,63% í dag. Hlutabréf félagsins hafa nú hækkað um tæp 16% síðastliðinn mánuð.
Uppgjör Ölgerðarinnar á fimmtudaginn
Ölgerðin hækkaði einnig á markaði og fór gengið upp 1,65% í 63 milljón króna viðskiptum en Ölgerðin mun birta uppgjör þriðja árs-fjórðungs á fimmtudaginn.
Síldarvinnslan lækkaði mest allra skráðra félaga í Kauphöllinni í dag og fór gengið niður un 2,84% í 46 milljón króna viðskiptum. Gengi Síldarvinnslunnar hefur lækkað um rúm 6% síðastliðinn mánuð og 10% á árinu.
Kvika banki lækkaði um 2,37% í 81 milljón króna viðskiptum, Síminn fór niður um 2,21% í 148 milljón króna viðskiptum og Brim lækkaði um tæp 2% í 66 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréf í Arnarlax hækkuðu um tæp 3% á First North markaðnum í 3 milljón króna viðskiptum.
OMXI 10 úrvalsvísitalan lækkaði um 0,24%. Heildarvelta í Kaup-höllinni var 2,5 milljarðar.