Hlutabréf í Marel hækkuðu mest allra í dag í 488 milljón króna viðskiptum og er gengið nú í 608 krónum á hlut. Hækkunin nemur 1,3% frá því í gær en þá stóð gengið í 600 krónum á hlut sem er lægsta gengi síðan í apríl 2020.

Félagið birti í morgun tilkynningu um endurkaupaáætlun, en félagið hyggst kaupa eigin hluti sem samsvara 0,5% af útgefnu hlutafé, fyrir hámarks heildarkaupvirði allt að þremur milljörðum króna. Tilgangur endurkaupanna er að standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins.

Átta félög hækkuðu og fjögur lækkuðu, en hin tólf félög aðalmarkaðarins stóðu í stað í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,45% í 2,2 milljarða veltu.

Mest lækkuðu bréfin í Arion banka, eða um 0,9% í 435 milljón króna veltu og var í lok dags 160,5 krónur á hlut.