Samfélagsmiðillinn TikTok hefur náð samkomulagi um samstarf við indónesíska tæknirisann GoTo. TikTok hyggst endurræsa netverslun sína í landinu en miðillinn neyddist til að loka fyrir henni í október í samræmi við ný lög í landinu.
TikTok, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins Bytedance, mun fjárfesta 1,5 milljörðum dala í Tokopedia, stærstu netverslun Indónesíu.
Samkvæmt samningnum mun TikTok kaupa 75% hlut í Tokopedia og munu viðskipti TikTok Shop í Indónesíu renna beint í þá starfsemi en TikTok er með yfir 125 milljónir notenda í Indónesíu. GoTo og TikTok segjast ætla að kynna indónesískar vörur á miðlum sínum til að hjálpa litlum og meðalstórum fyrirtækjum landsins við að þróa framleiðslu- og söluáætlanir sínar.
„Þetta stefnumótandi samstarf mun hefjast með tilraunatímabili sem verður framkvæmt í samvinnu við viðkomandi eftirlitsaðila,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu frá fyrirtækjunum.
Íbúar Indónesíu eru meira en 270 milljónir og eru þeir mjög virkir notendur á samfélagsmiðlum. Indónesía var einnig einn stærsti smásölumarkaður á netinu fyrir forrit eins og TikTok áður en bannið tók í gildi í október.
Með nýju lögunum vildu stjórnvöld vernda smásala og netsala í landinu en netverslun í Indónesíu hefur meira en sexfaldast frá árinu 2018. Á næsta ári er áætlað að netsala muni nema 44 milljörðum dala, samkvæmt seðlabanka Indónesíu.