„Ég byrjaði að vinna hjá þeim fyrst um 2004 og hef ég unnið þarna öll jól og annars slagið á sumrin, en kannski minna síðustu árin. Svo kom ég til þeirra í febrúar þegar ég var að ferma og frétti að bræðurnir væru að íhuga að leggjast í helgan stein,“ segir Jóhann Ingi Jóhannsson, nýr eigandi Kjöthallarinnar.

Bræðurnir Sveinn og Björn Christenssynir voru að íhuga að selja starfsemina en óljóst var hver myndi taka við keflinu. Þar var svo ákveðið að Jóhann myndi taka við enda er hann vel kunnugur þar á bæ.

Kjöthöllin hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun fyrir 80 árum síðan. Christian H. Christensen stofnaði verslunina árið 1944 og var hún þá staðsett að Klömbrum á Klambratúni. Verslunin var síðan flutt í Skipholt 70, þar sem hún hefur verið rekin síðan.

Bræðurnir tóku við rekstrinum árið 1974 og ráku þeir fyrirtækið ásamt eiginkonum sínum Unni Birgisdóttur og Sigfríði Friðþjófsdóttur. Síðustu ár hafa dætur þeirra, Anna Björk Sveinsdóttir og Sigríður Hyldahl Björnsdóttir, komið að rekstrinum.

Viðskiptablaðið ræddi síðast við eigendur Kjöthallarinnar árið 2023 þegar verið var að loka versluninni á Háaleitisbraut. Reksturinn hefur þó gengið mjög vel síðan þá og er öllum viðskiptavinum nú þjónað á einum stað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.