Isavia hefur auglýst eftir umsóknum vegna forvals fyrir áformað útboð á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Fyrirhugað er að bjóða út reksturinn til átta ára með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár.

„Við erum í rauninni að stíga fyrsta ákveðna skrefið í átt að því að bjóða út Fríhöfnina,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Isavia hefur auglýst eftir umsóknum vegna forvals fyrir áformað útboð á rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Fyrirhugað er að bjóða út reksturinn til átta ára með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár.

„Við erum í rauninni að stíga fyrsta ákveðna skrefið í átt að því að bjóða út Fríhöfnina,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia.

Fyrir rúmum tveimur árum réðst Isavia í forathugun til að leggja mat á hvort ávinningur yrði af því að bjóða verslunarreksturinn út fremur en að halda áfram eigin rekstri á Fríhöfninni í gegnum dótturfélag. Guðmundur Daði segir að sú vinna hafi gefið vísbendingar um fjárhagslegan ávinning af útboði.

Í kjölfarið framkvæmdi Isavia síðastliðið haust markaðskönnun um hvort áhugi væri meðal markaðsaðila um að koma að rekstri Fríhafnarinnar.

„Við sáum að það er mikill áhugi meðal aðila á markaðnum að koma að rekstri fríhafnar á Íslandi. Núna erum við að stíga næsta skrefið með forvali til að kanna hvort þessir aðilar uppfylli það hæfi sem við teljum nauðsynlegt og hvort þeir séu tilbúnir að skuldbinda sig til þátttöku í útboðinu.“

Guðmundur Daði áætlar að niðurstaða fyrirhugaðs útboðs geti legið fyrir eftir 12 til 18 mánuði. Hann gerir ráð fyrir að nýr rekstraraðili taki við Fríhöfninni innan tveggja ára.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um fyrirhugað útboð á rekstri Fríhafnarinnar í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.