Leiðarvísir sem kortleggur nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur tekið til starfa undir nafninu Skapa. Vefsíðan inniheldur upplýsingar og samantekt á þeim stuðningi sem er í boði í nýsköpun fyrir frumkvöðla.
Ólafur Örn Guðmundsson, stofnandi síðunnar, segir að hann hafi ákveðið að stofna síðuna þegar hann var sjálfur að koma sér áfram með eigin nýsköpunarverkefni. Á þeim tíma hafi hann upplifað mikinn skort á yfirsýn yfir þann stuðning sem er í boði fyrir frumkvöðla.
„Ég vildi í raun bara opinbera allar þær upplýsingar sem ég var sjálfur búinn að safna, til dæmis hvaða styrktarmöguleikar eru í boði og svo framvegis. Síðan þá hefur fólk sent inn töluvert mikið af ábendingum sem ég hef svo bætt líka inn á síðuna.“
Hann segir leiðarvísirinn vera nokkurs konar samfélagslega drifið verkefni sem hjálpi nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi. Með síðunni geta notendur nálgast öll nauðsynleg tæki og upplýsingar sem tengjast nýsköpun.
„Síðan var ekki mikið auglýst þegar hún fór fyrst í loftið en margir stuðningsaðilar hafa verið duglegir að benda á leiðarvísirinn og hafa frumkvöðlar líka verið ánægðir með þetta. Margir segja að þetta hafi sparað þeim marga klukkutíma og spyrja hvers vegna þeir hafi ekki vitað af þessu fyrr,“ segir Ólafur.