Nasdaq tilkynnti í dag um niðurstöður endurskoðunar á OMX Iceland 15 Úrvalsvísitölunni. Breytingin tekur gildi mánudaginn 1. júlí næstkomandi.
Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis, sem var skráð í Kauphöllina í apríl síðastliðnum, og Reitir fasteignafélag verða tekin inn í vísitöluna. Oculis er nú tvískráð í Kauphöllinni og á bandaríska Nasdaq-markaðnum.
Brim og Skagi, móðurfélag VÍS og Fossa fjárfestingarbanka, falla á hinn bóginn úr vísitölunni um mánaðamótin.
Úrvalsvísitala er samsett af stærstu félögunum og þeim sem mest viðskipti eru með á hlutabréfamarkaði Nasdaq Iceland. Endurskoðun á sér stað tvisvar á ári og tekur ný samsetning vísitölunnar gildi í janúar og júlí ár hvert.
Um síðustu áramót var félögum í Úrvalsvísitölunni fjölgað úr tíu í fimmtán. Nasdaq sagði að með þeirri breytingu væri miðað við að vísitalan nái utan um 80% af flotleiðréttu markaðsvirði og endurspegli þannig betur seljanlegustu fyrirtækin á markaðnum.
Samsetning Úrvalsvísitölunnar eftir uppfærsluna
Alvotech |
Amaroq Minerals |
Arion banki |
Eimskip |
Festi |
Hagar |
Hampiðjan |
Icelandair |
Islandsbanki |
Kvika banki |
Marel |
Oculis |
Reitir fasteignafélag |
Sildarvinnslan |
Sjova |