Tungumálaforritið LingQ mun halda upp á Dag íslenskrar tungu í dag með því að bjóða upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir notendur um allan heim. Íslenskukennslan verður ókeypis í að minnsta kosti nokkur ár og verða þjónustumöguleikar síðan endurskoðaðir.
LingQ er eitt af fremstu tungumálaforritum í heimi og býður notendum upp á 46 tungumál víðs vegar um heiminn gegnum bæði vefsíðu sína og snjallforrit.
Rökkvi Vésteinsson, íslenskur leiðsögumaður og uppistandari, kynntist sjálfur forritinu árið 2019 og ákvað að taka það að sér að þýða smásögusafn LingQ yfir á íslensku. Hann hefur auk þess unnið með íslenskum höfundum og efnisveitum sem hafa samþykkt að leggja til efni í greinasafn LingQ. Nemendur geta þar að auki flutt sitt eigið efni inn í forritið.
„Ég sá hversu öflugt LingQ var og hvað mér gekk vel að læra með því og hugsaði hvað það myndi hjálpa öllum sem vilja læra íslensku ef íslenska væri þarna inni. Ég ræddi við Mark Kaufmann, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, og það þróaðist út í að við sömdum um að gera íslensku ókeypis þann 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu.“
LingQ var stofnað árið 2002 af feðgunum Steve og Mark Kaufmann og hét upphaflega thelinguist en árið 2007 var vefsíðan endurnefnd LingQ. Fyrir utan megináhersluna sem lögð er á að læra gegnum efni, hafa notendur LingQ einnig aðgang að einkakennurum yfir netið, alþjóðlegu spjallhorni og síðu þar sem notendur geta skrifað texta og leiðrétt skrift hvers annars.