Velta með hlutabréf Ölgerðarinnar það sem af er degi nemur um 280 milljónum króna og er nokkru minni en í öðrum nýlegum útboðum að Solid Clouds frátöldu.

Félagið er einnig það eina fyrir utan leikjaframleiðandann sem hefur ekki hækkað verulega í viðskiptum morgunsins, en verðið stendur þegar þetta er skrifað í sléttum 10 krónum og því hálfu prósentustigi undir 10,03 króna útboðsgengi B-tilboðsbókar þó það sé 12% yfir A-genginu.

Velta með bréf hins gamalgróna vaxtafyrirtækis nam ríflega 58 milljónum króna fyrsta hálftímann í morgun en hafði meira en tvöfaldast um hádegisbil í 140 milljónum. Síðan þá hafa viðskipti aukist enn hraðar og höfðu náð 250 milljónum klukkan 2.

Um hádegisbil á fyrsta degi höfðu bréf Síldarvinnslunnar hækkað um tæp 9% frá B-útboðsgengi og hjá Íslandsbanka og Play nam hækkunin um fimmtungi. Sé miðað við lægra útboðsgengi tilboðsbókar A hjá Play air nam hækkunin 36%. Í öllum tilfellum var gengið svo til óbreytt í lok sama dags.

Solid Clouds sker sig hinsvegar verulega úr með 12% lækkun frá neðra útboðsgengi og yfir 21% frá því efra um hádegisbil á fyrsta viðskiptadegi, en við lokun hafði gengið svo hækkað aftur upp í slétt neðra útboðsgengi sem var 10,7% undir því efra.

Hvað veltu varðar er munurinn milli flestra þessara félaga mældur í stærðargráðum. Viðskipti með bréf Íslandsbanka námu 2,7 milljörðum króna á fyrsta klukkutímanum og höfðu náð hátt í 5 milljörðum þegar viðskiptum dagsins lauk þann 23. júní í fyrra þegar bréfin voru tekin til viðskipta.

Velta með bréf Play fóru yfir hálfan milljarð fyrir klukkan 10 en viðskipti róuðust verulega þegar leið á daginn sem endaði í ríflega 700 milljónum. Síldarvinnslan fór rólegar af stað með 300 milljónir fyrir 10, en hélt dampi og endaði daginn í ríflega milljarði.

Aftur er Solid Clouds algerlega sér á báti með tæplega 4 milljóna króna viðskipti fyrir 10, 12 milljónir fyrir hádegi og á fimmtándu milljón yfir daginn í heild.