Vinnuhópur á vegum forsætisráðherra samdi áformin sem birt voru í samráðsgátt í lok júní en markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að hrinda í framkvæmd áformum stjórnvalda og Seðlabanka Íslands um að koma á fót innlendri smágreiðslulausn sem þjóni þjóðaröryggi og fjármálastöðugleika og sem auki hagkvæmni í smágreiðslumiðlun.

Tveir þættir eru nefndir sérstaklega í áformunum um tilefni lagasetningarinnar. Annars vegar segir að tilhögun rafrænnar greiðslumiðlunar sé talin ógna þjóðaröryggi en langstærsti hluti innlendar smágreiðslumiðlunar fer nú fram með greiðslukortum sem nýta erlenda innviði og hið sama á við um heimildargjöf og jöfnun innlendra kreditkorta.

Hins vegar kemur fram að kostnaður af greiðslumiðlun hér á landi sé óvenju hár ef miðað er við sambærilegan kostnað í nágrannalöndum. Áætlaður samfélagskostnaður af notkun greiðslumiðla hér á landi árið 2021 hafi verið 46,5 ma.kr. á verðlagi þess árs eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar hafi samfélagskostnaður í Noregi á árinu 2020 numið um 0,79% af VLF.

Tvær útfærslur eru taldar mögulegar við lagasetningu. Fyrri leiðin fælist í því að styrkja reglusetningarheimildir Seðlabankans til þess að koma á fót innlendri óháðri smágreiðslulausn sem uppfyllti bæði kröfur um þjóðaröryggi og hagkvæmni. Hin leiðin fæli í sér að setja sérlög um innlenda óháða smágreiðslulausn sem hefði sama markmið. Verði ekkert aðhafst sé óvíst að markmiðum verði náð og ótryggt að fram komi rafrænar greiðsluleiðir sem geti virkað ef rof verður á virkni greiðslukorta.

Seðlabankinn hefur undanfarið átt í viðræðum við innlánsstofnanir um að koma á fót innlendri smágreiðslumiðlun sem byggist á RÍR-lausn (reikning í reikning). Vinnuhópur undir forystu Seðlabankans vinnur að nánari tæknilegri og viðskiptalegri útfærslu á samstarfinu, þ.e. virkni grunninnviða, lausn fyrir neytendur og umgjörð samstarfs og tæknilegrar útfærslu. Í áformunum segir að rök séu fyrir því að setja lagaumgjörð um þessa innviði og greiðslulausn til að tryggja betur að markmið þeirra nái fram að ganga.

Ekki hefur verið gerð verkefnisáætlun fyrir frumvarpssmíðina en gert er ráð fyrir að frumvarp verði lagt fram á Alþingi í haust. Seðlabankinn gæti hafið undirbúning strax við að þróa grunninnvið en gert er ráð fyrir að gildistaka frumvarpsins geti orðið 1. janúar 2024.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.