Keahótel hafa opnað Salt, nýtt gistihús á Siglufirði. Salt gistihús verður tíundi gististaðurinn í keðju Keahótela, sem meðal annars reka Hótel Kea á Akureyri, Hótel Borg í Reykjavík og Hótel Kötlu á Vík.

„Er það staðsett í sögufrægu húsi sem hýsti áður Hótel Hvanneyri sem var fyrst starfrækt árið 1934. Hvanneyri var lengi einn helsti samkomustaður Siglfirðinga og þegar krónprinshjónin komu þangað sumarið 1938 bauð bæjarstjórnin þeim og fylgdarliði þeirra til hressingar á hótelinu.“ Segir í tilkynningu

Keahótel tóku við rekstri Sigló Hótels í febrúar síðastliðnum og færa nú út kvíarnar með opnun á Salt gistihúsi. Nafn gistihússins vísar til Síldaráranna á Siglufirði þar sem síldin var söltuð í trétunnur en merki gistihússins er trétunna sem vísar einnig til þessa sögulegu tíma. Í gistihúsinu eru 24 herbergi sem rúma einn til þrjá gesti, þar af eru átta herbergi með sérbaðherbergi. Salt gistihús er staðsett í miðbæ Siglufjarðar og er því í göngufæri við veitingastaði, verslanir og helstu þjónustu í bænum.“

„Við höfum mikla trú á svæðinu og væntingar til áframhaldandi uppgangs ferðaþjónustu á Siglufirði, sem hefur verið mikil á undanförnum árum. Það er ánægjulegt að geta boðið upp á annan og hagkvæmari kost þegar kemur að gistingu á svæðinu og það í þessu sögufræga húsi,“ segir Snorri Pétur Eggertsson , framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Keahótela.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu undanfarin ár á Siglufirði sem laðar að sér sífellt fleiri gesti. Sigló Golf er nýjasta viðbótin í fjölbreytta afþreyingu svo sem Síldarminjasafnið, Skíðasvæðið í Skarðsdal, gönguskíðabrautir, strandblaksvöll, sundlaug og margt fleira.